Beint í efni

Mikilvægar upplýsingar um vegi norðan Vatnajökuls

Landverðir á hálendinu norðan Vatnajökuls vilja koma á framfæri mikilvægum upplýsingum um vegi norðan Vatnajökuls. Um er að ræða veg F910 (Dyngjufjallaleið) og Gæsavatnaleið. Snjó hefur tekið seint um á sumum leiðum og því er mikilvægt að afla sér upplýsinga um aðstæður áður en lagt er af stað. Einnig óska landverðir eftir að fá upplýsingar frá þeim sem um hálendisvegina fara til að geta stöðugt miðlað nýjustu upplýsingum.

26. júlí 2022

Landvörður veitir upplýsingar í Drekagili. Mynd: Júlía Björnsdóttir

F910 Dyngjufjallaleið

F910 er nú loksins orðin greiðfær, allir skaflar eru farnir og snjóbleytur þornaðar. Vegagerðin hefur því tekið af merkingu um ófærð og er vegurinn opinn. Athugið að leiðin er þó torfær og einungis ætluð stærri jeppum.

Gæsavatnaleið

Það er ennþá snjór á Gæsavatnaleið en eins og er eru skaflarnir harðir en við búumst nú við að skaflarnir fari að mýkjast og verði því um tíma illfærir. Almennt eru vegir sem eru illfærir vegna snjóa merktir ófærir eða lokaðir skv. Vegagerðinni, en Gæsavatnaleið er í umsjá þjóðgarðsins og í ljósi aðstæðna viljum við reyna að koma til móts við gesti og afnema akstursbann. Hafa ber í huga að leiðin er enn einkar torfær og að einungis mikið breyttir bílar eiga erindi þangað og einungis í samfloti við annan bíl eða fleiri og með almennilegan dráttartóg meðferðis. Við höfum einnig frétt af léttum fjórhjólum á ferðinni og ef þess konar faratæki geta keyrt ofan á snjónum þar sem hann liggur í veginum er það í lagi. Leiðin er alls ekki fær óbreyttum eða lítið breyttum bílum, þungum trukkum eða þeim sem eru einbíla.

Aðstæður eiga eftir að breytist hratt og því nauðsynlegt að allir sem ætla sér að keyra Gæsavatnaleið hafi samband við landverði í Drekagili (842-4357) áður en lagt er af stað til að fá nýjustu upplýsingar um færð. Einnig hvetjum við alla sem keyra Gæsavatnaleið að kíkja á landverði í Drekagili eða Nýjadal og gefa þeim allra nýjustu upplýsingar um færð svo hægt sé að miðla þeim upplýsingum áfram til annarra bílstjóra.

Áfram fylgst með aðstæðum

Landverðir þjóðgarðsins í samvinnu við hálendisgæsluna í Dreka og Nýjadal munu áfram fylgjast vel með færðinni næstu daga. Veginum verður lokað tímabundið ef færð versnar svo mikið að vegur og náttúra liggja undir skemmdum. En við vonum að sjálfsögðu að ekki þurfi að grípa til þess.

Við minnum alla á að aldrei má keyra utan vegar jafnvel þó hindrun sé á veginum og hvetjum við alla sem verða vitni að akstri utan vega að hafa samband við lögreglu og landverði á svæðinu.

Leiðir um Dyngjufjalladal, Vikrafell og Réttartorfu eru nú snjólausar og þurrar.