Menningarminjadagar í Skaftafelli 28. ágúst
Vatnajökulsþjóðgarður stendur fyrir sérstakri fræðslugöngu í Skaftafelli þann 28. ágúst. Tilefnið eru Menningarminjadagar Evrópu eða European Heritage Days sem eru samevrópsk hátíð á vegum Evrópuráðs.
Vatnajökulsþjóðgarður stendur fyrir sérstakri fræðslugöngu í Skaftafelli þann 28. ágúst. Tilefnið eru Menningarminjadagar Evrópu eða European Heritage Days sem eru samevrópsk hátíð á vegum Evrópuráðs. Hlutverk daganna er að vekja athygli almennings á menningarminjum og því hve mikilvægar þær eru, bæði fyrir samfélagið sjálft og efnahag.
Skaftafell á langa og dýrmæta menningarsögu en þar er talið að hafi verið búskapur allt frá landnámi og hafa íbúar í Skaftafelli getið af sér gott orð fyrir hagleik, handverk og hugvit.
Landverðir taka á móti gestum við upplýsingamiðstöðina kl.13:00 og ganga með þeim upp Gömlutún og að Seli. Á leiðinni verður stoppað á völdum stöðum þar sem landverðir segja frá því sem fyrir augu ber. Í Seli verður dagskrá sem byggist fyrst og fremst á upplestri og söng.
Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir sem vilja og dagskráin er gjaldfrjáls að undanskildu þjónustugjaldinu sem innheimt er fyrir bifreiðar í Skaftafelli.
Hvar: Við upplýsingamiðstöðina í Skaftafelli
Hvenær: kl. 13:00, miðvikudaginn 28. ágúst
Klæðnaður eftir veðri
Allir velkomnir!