Í minningu Snorra Baldurssonar
Snorri Baldursson, líffræðingur, fræðimaður, fyrrum þjóðgarðsvörður og einn af okkar öflugustu leiðtogum og liðsmönnum í náttúruvernd, er fallinn frá. Vatnajökulsþjóðgarður saknar vinar í stað.
Föstudaginn 15. október kvöddum við góðan vin og ómetanlegan liðsmann. Snorri var þjóðgarðsvörður á vestursvæðinu á fyrstu árum þjóðgarðsins og vann þar ötullega að mótun, skipulagsmálum og innviðauppbyggingu. En Snorri hugsaði líka hærra. Hann átti sér draum um að Vatnajökulsþjóðgarður hlyti sess á heimsminjaskrá UNESCO og þannig yrði verðmæti hans og þeirra víðerna sem honum er ætlað að vernda, staðfest á heimsvísu.
Sumir draumar rætast – sérstaklega þegar unnið er að þeim af brennandi áhuga og ríkum hæfileikum. Snorri var ritstjóri umsóknar Íslands til Heimsminjanefndar UNESCO um tilnefningu VJÞ á heimsminjaskrá. Umsóknin var meistaraverk og í júlí 2019 fengum við að gleðjast með Snorra og teyminu hans, þegar þjóðgarðurinn var samþykktur sem heimsminjastaður, á grundvelli einstakrar náttúru.
En Snorri var hvergi nærri hættur. Síðastliðin ár hefur hann, þrátt fyrir erfið veikindi, haldið áfram að nota hverja stund í þágu náttúrunnar og víðernanna dýrmætu. Nýja bókin hans Vatnajökulsþjóðgarður – gersemi á heimsvísu, sem byggð er á umsókninni og kom út fyrir skemmstu, er svo sannarlega gersemi. Hún er ómetanlegt uppflettirit og ást og virðing Snorra fyrir náttúrunni skín af hverri síðu. Fyrir okkur, sem fengum að vinna með Snorra og læra af honum, var þó hitt ekki síðra – að geta kallað eftir aðstoð, fróðleik, myndum, og faglegri ráðgjöf, hvenær sem var – og koma aldrei að tómum kofunum. Jákvæðnin og hjálpsemin og innilegur áhugi á viðfangsefnum okkar átti sér engin takmörk.
Síðasta grettistak Snorra í verndun víðerna var stofnun náttúruverndarsamtakanna Skrauta og aðkoma hans að því að hleypa af stokkunum verkefninu Óbyggð, kortlagningu víðernanna. Með því lagði hann enn eitt lóð á vogarskálarnar til að veita víðernunum vernd og skjól, hjálpa okkur að þekkja þau betur og taka upplýstar ákvarðanir í þeirra þágu.
Við, vinnufélagar, sporgöngumenn og vinir Snorra erum þakklát fyrir að hafa átt hann að og færum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.