Beint í efni

Hönnun vega á hálendi Íslands - Málþing

Vatnajökulsþjóðgarður tók á þriðjudag, 11. maí, þátt í málþingi á vegum Vegagerðarinnar varðandi þjóðvegi á hálendi Íslands.

12. maí 2021

Umferð á hálendisvegi norðan Vatnajökuls. Mynd: Júlía Björnsdóttir

Eitt af verkefnum Vegagerðarinnar samkvæmt samgöngáætlun 2020-2034 er að móta stefnu um hönnun vega á hálendi Íslands í samræmi við áherslur í landsskipulagsstefnu. Markmið Vegagerðarinnar með málþinginu var að heyra skoðun ólíkra hópa á málefninu; hvernig þeir sjái fyrir sér vegi á hálendinu, hvar þeir eigi að vera, hvernig og hverjum þeir skuli þjóna.

Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, verkefnastjóri skipulags – og öryggismála var með erindi fyrir hönd þjóðgarðsins. Í erindinu var m.a. fjallað um náttúrulegar aðgangsstýringar á hálendi, merkingar á hálendisvegum (erfiðleikastig) og akstur utan vega. Bent var á mikilvægi þess að umræða um uppbyggingu vega væri í samhengi við þolmörk á aðliggjandi svæðum og þá þörf á frekari innviðum s.s. salernum. Þá var fjallað um ferli ákvörðunartöku varðandi hvar skuli vera vegir og þeir þá skráðir á vegaskrá.

Dagskrá og aðrar upplýsingar um málþingið má nálgast hér á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarður fagnar frumkvæði Vegagerðarinnar að samtalinu um þarft málefni.