Beint í efni

Greining á þörfum og framtíðarsýn á húsnæðismálum Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn

Á stjórnarfundi Vatnajökulsþjóðgarðs sem haldinn var í Hoffelli 22. febrúar s.l. skrifuðu Vatnajökulsþjóðgarður og Sveitarfélagið Hornafjörður undir samstarfsyfirlýsingu um greiningu á þörfum og framtíðarsýn á húsnæðismálum Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn. Fyrirhugað er að skoða bæði þarfir fyrir skrifstofu- og sýningarhúsnæði.

24. febrúar 2022

Við undirritun viljayfirlýsingar í Hoffelli. Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs undirrita. Fyrir aftan standa t.v. Ásgerður Gylfadóttir, formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar og t.h. Auður H. Ingólfsdóttir, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Síðustu 8 ár hafa starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn haft aðstöðu í Gömlubúð, og haldið þar út skrifstofum og gestastofu þjóðgarðsins. Síðustu ár hafa umsvif á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs aukist jafnt og þétt, sérstaklega með tilkomu Breiðamerkussands í þjóðgarðinn en einnig með störfum innan þjóðgarðsins sem sinna fleiri svæðum en suðursvæði en eru störf óháð staðsetningu. Nú er svo komið að starfsemin hefur sprengt af sér húsnæðið. Vatnajökulsþjóðgarður og Sveitarfélagið hafa áður átt í góðu samstarfi varðandi húsnæði, en á næstu vikum fær þjóðgarðurinn afhentar íbúðir á Hrollaugsstöðum hvar Vatnajökulsþjóðgarður lagði fram 43 milljónir kr. í endurgerð Hrollaugsstaða í formi fyrirframgreiddrar leigu.

Með samstarfi um nýtt skrifstofu- og sýningarhúsnæði vonast Vatnajökulsþjóðgarður til þess að starfsstöðin á Höfn haldi áfram að vaxa og dafna , og að samstarfið leiði til þess að metnaðarfull Jöklasýning verði sett upp á Höfn.