Göngudagur Egilsstaðaskóla á Snæfellsöræfum
Á dögunum var hinn árlegi göngudagur í Egilsstaðaskóla þar sem allir bekkir skólans fara í ólíkar göngur vítt og breytt um sveitarfélagið, enda Fljótsdalshérað landmesta sveitarfélagið. Að vanda tóku landverðir í Snæfelli á móti 8. bekk og gekk hópurinn í norður hlíðum Snæfells, upp með Hölkná í gegnum Vatnsdal og yfir á Snæfellsnes þar sem gott útsýni er yfir Eyjabakka, má segja að hópurinn hafi gengið frá ógrónu og hrjóstugu landi á Söndum yfir á gróðurríkar flæðisléttur Eyjabakka.
Nemendurnir voru sérlega fróðleiksfúsir og hlustuðu á landverði segja frá þjóðgarðinum, jarðfræði Snæfells, gróðri og dýralífi og loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Einnig fengu nemendur að heyra um Fjallatívann sem er andi Snæfells og söguna af þjófunum í Þjófadal. Þrátt fyrir lágt hitastig og þónokkurn vind brugðu nokkrir nemendur sér á sund í vatninu sem er jökulkalt.
Göngudagur Egilsstaðaskóla er frábær leið til að auka þekkingu skólabarna á náttúru, nærumhverfi sínu og til að fræðast um Vatnajökulsþjóðgarð.
Við þökkum 8. bekk í Egilstaðaskóla kærlega fyrir samveruna og hér má sjá nokkrar myndir frá deginum birtar með leyfi :