Beint í efni

Gestafjöldi og gistinætur í Jökulsárgljúfrum í maí og júní 2020

Fyrstu tölur um fjölda gesta í Jökulsárgljúfrum þetta sumarið liggja nú fyrir, en vægt er til orða tekið þegar sagt er að þær séu gjörólíkar þeim tölum sem áður hafa sést.

10. júlí 2020

COVID-19 spilar auðvitað stórt hlutverk í því, en einnig hafði það áhrif hversu seint Dettifossvegur 862 opnaðist milli Ásbyrgis og Dettifoss, í það minnsta ef það er borið saman við árið í fyrra. Þá opnaðist þessi vegarkafli 6. maí en í ár var það tveimur vikum seinna eða 20. maí.

Skráðar gestakomur við Dettifoss að vestanverðu í maí 2020 voru 1.920, samanborið við 27.407 í fyrra. Var umferðin þannig ekki nema 7% af því sem hún var í fyrra. Í júní 2020 voru skráðar gestakomur 9.882, samanborið við 41.898 í fyrra (umferðin í ár 23,6% af því sem var í júní 2019).

Samanburður milli ára á tölum frá Dettifossi austanverðum er lítt marktækur, enda var Hólsfjallavegur 864 ófær vegna vegaskemmda langt fram eftir júní og opinberlega ekki opnaður fyrr en 29. júní. Skráðar gestakomur við Dettifoss austanverðan í júní 2020 voru 1.214, samanborið við 18.329 í fyrra. Sem fyrr segir er þessi samanburður þó lítið marktækur.

Frá Ásbyrgi er aðra sögu að segja en við Dettifoss. Skráðar gestakomur í Ásbyrgi í maí 2020 voru 3.301, samanborið við 7.640 í fyrra. Umferðin þar var því 43,2% af því sem hún var í fyrra. Í júní 2020 voru skráðar gestakomur í Ásbyrgi 12.732, samanborið við 20.145 í fyrra (umferðin í ár 63,2% af því sem var í júní 2019). Þar er þó ekki nema hálf sagan sögð því mikil aukning var í gistinóttum á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi. Þannig voru 667 gistinætur í maí 2020, samanborið við 268 gistinætur í maí 2019 (149% aukning í ár). Og í júní 2020 voru 4.003 gistinætur, en í júní 2019 voru þær 1.726 (132% aukning í ár). Samanlagt fjölgaði því gistinóttum í maí og júní um 134% og verður það að teljast allgott. Sé svo einungis horft til gistinátta Íslendinga á þessu tímabili (maí og júní) þá voru þær 729 í fyrra en 4.463 í ár. Jafngildir það 512% fjölgun og er nokkuð skýr vísbending um það að landsmenn eru að ferðast innanlands þetta sumarið.