Beint í efni

Garður þjóðar: Jóla- og nýárskveðja Vatnajöklulsþjóðgarðs

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs sendir gestum sínum, starfsfólki, samstarfsaðilum og landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með óskum um heillaríkt komandi ár.

17. desember 2021

Undanfarin misseri hefur Vatnajökulsþjóðgarður tekist á hendur krefjandi áskoranir við að efla og þróa vinnustaðinn og þá þjónustu sem veitt er. „Ég hef stundum líkt þessari vegferð við vöxt og þroska manneskju þar sem þekking eykst hratt á æskuárunum og margt bætist í reynslubankann. Framundan hjá Vatnajökulsþjóðgarði eru unglingsárin þar sem ýmislegt er prófað í fyrsta sinn í anda nýsköpunar og sumt tekst í fyrstu tilraun en annað þarf að prófa aftur eða þróa áður en markmiðinu er náð “, segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri.

Margir góðir áfangar náðust í starfi Vatnajökulsþjóðgarðs á árinu 2021. Má þar nefna að ný metnaðarfull stefnumótun tók gildi á vormánuðum, lokið var við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand og Jökulsárlón og Jökulsárlón hlaut tilnefningu sem einn af Vörðu áfangastöðum Íslands“. Einnig var í fyrsta skipti gert svokallað ástandsmat 23 áfangastaða innan Vatnajökulsþjóðgarðs og komu þeir flestir vel út. Margvíslegar framkvæmdir vegna innviða þjóðgarðsins voru einnig í gangi á árinu 2021 og ber þar hæst upphaf vinnu við gestastofu á Kirkjubæjarklaustri og að ríkið festi kaup á húsnæði við Mývatn til að hýsa gestastofu og skrifstofur Vatnajökulsþjóðgarðs.

Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru fjölbreyttur hópur sem vill upplifa og stunda útivist á margvíslegan hátt. Hlutverk okkar er að tryggja vernd náttúru- og menningarminja, bjóða gesti velkomna og veita fræðslu, viðhalda gönguleiðum, reka gestastofur, skála, salerni og tjaldsvæði. Þjóðgarðurinn á einnig í mikilvægu samstarfi við fjölmarga sem stunda atvinnustarfsemi í eða við þjóðgarðinn enda er það eitt af markmiðum starfseminnar. Magnús framkvæmdastjóri færir landvörðum og framlínufólki í þjónustu þjóðgarðsins “sérstakar þakkir fyrir að taka vel á móti þeim sem sækja þjóðgarðinn heim við fjölbreyttar aðstæður og á ólíkum árstímum”.