Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Fréttir af austanverðu suðursvæði 

Haustið kom og fór og veturinn í öllu sínu veldi tók við á austurhluta suðursvæðis. Með breyttri árstíð breytast verkefni hjá starfsfólki svæðisins.

27. nóvember 2024
Vestari Fellsfjara / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Áhugi gesta á að heimsækja svæðið breytist þó ekki þrátt fyrir kólnandi veðurfar. Í október var slegið met í komu gesta á Jökulsárlón. Samkvæmt teljurum komu um 100.513 gestir að Jökulsárlóni og rétt tæplega 20.000 gestir fóru í skipulagða ferð á Breiðamerkurjökul. Það verður áhugavert að rýna í gestatölur nóvembermánaðar þegar þær berast. Landverðirnir halda áfram að gera endurbætur í og við Skúmaskot, hús landvarða við Jökulsárlón, og er vinnuaðstaðan orðin allt önnur, bæði innandyra sem og utan.

Ný salernisaðstaða við Jökulsárlón

Eftir langa bið eru framkvæmdir vegna nýrrar salernisaðstöðu við Jökulsárlón loksins að hefjast. Færa þarf matarvagnana tímabundið aðeins sunnar á bílastæðið en ætti það ekki að hafa nein áhrif á rekstur þeirra.

Salernishúsið er væntanlegt í desember og vonandi verður hægt að taka það í notkun fljótlega í kjölfarið.

Íshella- og jöklagöngufyrirtæki á svæðinu hafa verið beðin um að taka á móti gestum sínum á bílastæðunum í Eystri og Vestari Fellsfjöru í stað aðalbílastæðisins við Jökulsárlón á meðan vinna við sökkulinn fer fram.

Hræðsluganga á Höfn

Hin árlega hræðsluganga á Höfn fór fram venju samkvæmt í lok október þar sem þjóðgarðsvörður leiddi gönguna um Ósland á Höfn. Þrátt fyrir óheppilegt veður mættu um 30 manns í gönguna og átti fólk ánægjulega samveru í myrkrinu þar sem fræðst var um myrkrið og þjóðsögur.

Hræðsluganga á Höfn sem fór fram í lok október

Jöklaeftirlit

1. Október hófst jöklaeftirlit landvarða á Breiðamerkursandi í samræmi við nýtt verklag. Landverðir fara í eftirlit 3-5 sinnum í viku, upp á Breiðamerkurjökul og fylgjast með atvinnustarfseminni sem þar fer fram og eru sýnilegir gestum þjóðgarðsins. Lögð er áhersla á að fylgjast með öryggi gesta og menntun leiðsögumanna. Þann 1. nóvember hófst síðan eftirlit með íshellaskoðun og gönguferðum um skriðjökla þar sem landverðir fara í skipulagða ferð ferðaþjónustuaðila með samning um atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum.

Landverðir á Breiðamerkursandi í jöklaeftirliti í vetur

Fagráð tók til starfa

Fagráð hóf störf í lok október og er það vettvangur hagsmunaaðilana, FASK, SAF og AIMG. Hlutverk þeirra er að meta öryggi við íshella og jöklagöngur á þeim svæðum þar sem rekstraraðilar hafa gildan samning við þjóðgarðinn og hyggjast fara í jökla- og íshellaferðir. Fagráðið beinir sjónum sýnum á aðgengismálum út frá sjónarhóli öryggis og með hliðsjón af náttúruverndarjónarmiðum. Fagráðið fundar vikulega. Í fagráðinu eru einungis einstaklingar sem hafa lokið Jökla 3 eða sambærilegri menntun auk starfsreynslu á jökli. Auk fagráðsins eru starfræktir matshópar á hverju og einu starfssvæði samningshafa um jöklagöngur og íshellaferðir og er fagráðið með fulltrúa í hverjum og einum matshópi. Í matshópunum eru yfirleiðsögumenn sem hafa lokið jökla 3 eða sambærilegu námi auk þess að hafa starfsreynslu á jökli. Daglega er framkvæmt stöðumat og er matið í höndum matshópa á hverjum stað.

Almenn ánægja er með störf fagráðsins og matshópana og ber að hrósa fyrir fagleg vinnubrögð og metnað. Þetta skilar sér í auknu öryggi og enn meiri fagmennsku í atvinnugreininni.

Auglýst eftir umsóknum um atvinnutengda starfsemi

Í nóvember mánuði var opnað var fyrir umsóknir frá rekstraraðilum sem óska eftir að bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur í atvinnuskyni á tilteknum skriðjöklum suðursvæðis þjóðgarðsins. Starfsfólk skrifstofunnar á Höfn í Nýheimum vinnur hörðum höndum að því að fara yfir umsóknirnar enda stuttur tími til stefnu þar sem nýir samningar eiga að taka gildi 1. desember næstkomandi.