Beint í efni

Fræðsludagskrá sumarsins kynnt á afmælisdeginum

Vatnajökulsþjóðgarður á afmæli í dag 7. júní og nálgast fermingaraldurinn! Á 13 ára afmælinu kynnum við fræðsludagskrá sumarsins í þjóðgarðinum okkar allra.

7. júní 2021

Starfsmenn okkar eru fullir eftirvæntingar að taka á móti fjölbreyttum hópi gesta, hvort sem er í fjöru eða á fjallstoppi, við skoppandi læk eða beljandi stórfljót, á víðáttum sandsins, í jöklanna hrammi eða í skjólsælli laut.

Ákvörðun um stofnun þjóðgarðsins markaði tímamót í sögu náttúruverndar á Íslandi. Við stofnun þjóðgarðsins árið 2008 voru friðlýst 10.857 km2 af einstökum náttúru og menningarminjum. Ný svæði hafa bæst við á liðnum árum og er þjóðgarðurinn nú alls 14.703 km2, eða tæp 15 % af landinu.

Stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins veitir sveitarfélögum og öðrum hagsmunaðilum breiða aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni þjóðgarðsins. Á liðnu vori var ný stefnumótun þjóðgarðsins kynnt [vantar hlekk]og ætlar Vatnajökulsþjóðgarður að vera leiðandi í sjálfbærni og byggja á grunnstoðum verndunar, upplifunar og nýsköpunar.

Fræðsla er einn af hornsteinunum í starfsemi þjóðgarðs. Í sumar er fjölbreytt fræðsla í boði, vítt og breitt um víðfem svæði þjóðgarðsins: Barnastundir, síðdegisrölt og sérstakir viðburðir eins og Dagur hinna villtu blóma og Alþjóðadagur landvarða. Landverðir og aðrir starfsmenn þjóðgarðsins standa síðan vaktina í gestastofum, á starfsstöðum þjóðgarðsins og úti í örkinni, boðnir og búnir til að taka á móti ferðalöngum sumarins.

Fræðsludagskrá 2021. [vantar hlekk]

Hlökkum til að sjá þig í Vatnajökulsþjóðgarði í sumar!