Beint í efni

Fræðsluáætlun Vatnajökulsþjóðgarðs tekur gildi

Á fundi sínum í gær samþykkti stjórn Vatnajökulsþjóðgarð fræðsluáætlun fyrir þjóðgarðinn, en með henni er stigið stórt skref í átt að þeim markmiðum er lúta að fræðslustarfi þjóðgarðsins og er m.a. kveðið á um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

16. ágúst 2018

Á fundi sínum í gær samþykkti stjórn Vatnajökulsþjóðgarð fræðsluáætlun fyrir þjóðgarðinn, en með henni er stigið stórt skref í átt að þeim markmiðum er lúta að fræðslustarfi þjóðgarðsins og er m.a. kveðið á um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

Markmið Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda einstaka náttúru og sögu þjóðgarðsins, stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins. Með aukinni þekkingu og skilningi eykst áhugi Íslendinga og erlendra gesta á Vatnajökulsþjóðgarði, náttúru hans og sögu, sem mun aftur leiða til aukinnar virðingar og umhyggju fyrir svæðinu.

Fræðsluáætlun Vatnajökulsþjóðgarðs gegnir lykilhlutverki í að ná þessu markmiði. Vinna við gerð hennar hófst á vordögum 2016 en verkefnið er styrkt af Vinum Vatnajökuls. Skipaður var starfshópur meðal fastra starfsmanna þjóðgarðsins en í honum voru Agnes Brá Birgisdóttir, Guðmundur Ögmundsson, Helga Árnadóttir, Hrönn G. Guðmundsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Jóna Björk Jónsdóttir. Fanney Ásgeirsdóttir og Sigrún Sigurgeirsdóttur komu inn á síðari stigum. Verkefnastjóri var Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir hjá Náttúrustofu Norðausturlands. Gagna um gesti og dagskrá þjóðgarðsins var aflað sumarið og haustið 2016 og haldnir fundnir með starfsmönnum þjóðgarðsins allt í kringum jökulinn. Í október – desember 2016 voru haldnir samráðsfundir með fjölmörgum aðilum, annars vegar í Reykjavík og hins vegar úti á svæðum þjóðgarðsins (sjá lista yfir fundi, spurningar og þátttakendur í viðauka 1). Vorið 2017 voru drögin send til allra þátttakenda á fundum og óskað eftir athugasemdum. Unnið var úr innsendum athugasemdum í byrjun vetrar 2017.

Fræðsluáætluninni er skipt í þrjá hluta. Fyrsti hluti, Stefnan, og annar hluti, Staðan, eru unnir upp úr framangreindum fundum og gögnum og eru þeir grunnur fræðsluáætlunar. Þriðji hluti, Framtíðin, er unninn með hliðsjón af fyrsta og öðrum hluta og þeim áherslum sem þar koma fram.

Fræðsluáætlun er til fimm ára og stefnt er á endurskoðun hennar fyrir lok þess tímabils.