Beint í efni

TripAdvisor setur Vatnajökulsþjóðgarð í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu

Ferðasíðan TripAdvisor hefur valið Vatnajökulsþjóðgarð í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu og í 17. sæti á heimsvísu árið 2021.

5. febrúar 2021
Á leið á Hvannadalshnjúk. Mynd af vefsíðu TripAdvisor.

Ferðasíðan TripAdvisor hefur valið Vatnajökulsþjóðgarð í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu og í 17. sæti á heimsvísu árið 2021. Vísað er til þess að í þjóðgarðinum megi finna yfirnáttúrulegt landslag, eins og bláa íshella, svarta sanda, fossa og grónar grundir, sem sé eftirsótt að kanna.

Skeifulaga kvosin Ásbyrgi er talinn staður fyrir þá sem vilji kanna skóglendi og hvort sem klífa eigi hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk eða ganga að Dettifossi að þá sé einstakt landslag og hrífandi jarðmyndandir eitthvað sem ekki má láta fram hjá sér fara. Sagt er frá áhugaverðum áningarstöðum og bent á nokkur þeirra fjölmörgu og metnaðarfullu afþreyingafyrirtæki sem starfa í og við þjóðgarðinn.

Val TripAdvisor byggir m.a. á meðmælum og einkunnagjöf ferðalanga um allan heim. Einkunnirnar eru svo teknar saman til að sýna „hið besta af hinu besta” (e. Travelers´ Choice Best of the Best awards) í nokkrum flokkum.

Vatnajökulsþjóðgarður þakkar fyrir hrósið og leggur metnað sinn í að taka áfram vel á móti innlendum sem erlendum ferðalöngum!