Beint í efni

Engin hjólahelgi í Jökulsárgljúfrum í ár – ný hjólaleið í boði

Fjöldi fyrirspurna berst þessa daga þess efnis hvort hjólahelgi verði í Jökulsárgljúfrum þetta árið. Stutta svarið við því er nei; engin hjólahelgi verður þetta árið. Ástæða þess er fyrst og fremst þessi:

20. ágúst 2020

Jökulsárgljúfur njóta sívaxandi vinsælda meðal hjólreiðamanna og óhætt er að segja að þar hafi orðið sprenging í notkun reiðhjóla á síðustu tveimur árum. Óvíst er hversu margir hefðu mætt með reiðhjól í Jökulsárgljúfur hefði hjólahelgi verið haldin í ár, en gróflega áætlað komu um 100 manns með reiðhjól á hjólahelgi 2017 og um 200 manns á hjólahelgi 2018. Aflýsa þurfti fyrirhugaðri hjólahelgi í lok sumars 2019 vegna tíðarfars og ástands göngustíga. Að mati þjóðgarðsvarðar, byggt á fenginni reynslu, er engin skynsemi í því að efna til viðburðar sem þessa nema að eitthvað skipulag sé á framkvæmdinni og einhver rammi utan um þátttakendur, t.a.m. fjölda þeirra. Slíkt utanumhald er hvorki í verkahring né á færi þjóðgarðsins.

Að þessu sögðu er rétt að benda á það að þjóðgarðurinn hefur í sumarið unnið að lagfæringum á leiðum innan þjóðgarðsins, m.a. til að skapa nýja möguleika fyrir reiðhjólamenn. Þannig er nú búið að skilgreina nýja reiðhjólaleið frá Langavatnshöfða ofan Vesturdals alla leið niður í Ás við Ásbyrgi. Þessi leið er 12 km löng og byrjar á Langavatnshöfða, fer þaðan að Rauðhólum og meðfram Jökulsárgljúfrum alla leið að Kúahvammi. Frá Kúahvammi er farið þvert í vestur inn á Ásheiði og svo niður eftir gömlu reiðleiðinni að Ási. Það er svo 1,5 km til viðbótar á vegi niður í Ásbyrgi. Kort af leiðinni má finna hér og GPS-feril hér.

Stefnt er á frekari endurbætur á hjólaleiðum innan þjóðgarðsins næsta sumar.