Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Austurafrétt Bárðdæla - stjórnunar- og verndaráætlun

Opið samtal og skýrt verklag eru lykill að árangri við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar. Vinnan felst í að leita jafnvægis á milli verndunar auðlindarinnar og nýtingar hennar. Útgangspunktur er að nýtingin sé sjálfbær, en sem slík getur hún t.d. falið í sér afréttarnot eða aðgengi til ferðamennsku með aðgengi sem val stendur á milli að hafa sem náttúrulegast og þá torvelt, eða auðvelt með miklum fjölda. Verkfærin sem leiða okkur í þessari jafnvægisleit felast í samtali. Í samtalinu þurfa heimamenn og aðrir sem mikla reynslu hafa af nýtingu svæðanna að skipa ríkan sess. Ekki síður eru við borðið fagstofnanir um vernd náttúru- og minja, sem leggja mat á gildi svæðanna og veita ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu, svo varðveita megi gildi þeirra.

6. apríl 2022

Í þessu samhengi hélt Vatnajökulsþjóðgarður fyrsta fund um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir austurafrétt Bárðdæla, sem varð hluti af þjóðgarðinum í september sl. Fundurinn var haldinn 31.mars sl. í félagsheimilinu að Kiðagili í Bárðardal. Upphaflega var fundurinn á dagskrá í nóvember sl. en var frestað vegna samkomutakmarkana.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði fundinn og fjallaði um mikilvægi þess að sá fjölbreytti hópur sem nýtir hálendið, nái samstöðu um verndun þess og nýtingu. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs héldu því næst erindi, en það voru Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri, Ingibjörg Halldórsdóttir lögfræðingur og Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir verkefnastjóri skipulags- og öryggismála. Þau fjölluðu um Vatnajökulsþjóðgarð almennt, stjórnskipulag hans og gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir austurafrétt Bárðdæla. Árni Bragason, forstjóri Landgræðslunnar fór yfir sögu Landgræðslunnar og helstu verkefni, með sérstakri áherslu á hið nýja svæði. Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands fjallaði um viðfangsefni stofnunarinnar í samhengi við Bárðdælaafrétt austari og samstarf við þjóðgarðinn. Glærur fyrirlesara eru aðgengilegar hér fyrir neðan.

Að loknum erindum var boðið upp á fyrirspurnir og umræður. Þar komu fram vangaveltur um aðgengi og nýtingarmöguleika svæðisins, t.d. með tilliti til landbúnaðar. Í því samhengi var vísað til almennra ákvæða Vatnajökulsþjóðgarðs um hefðbundna landnýtingu í núgildandi stjórnunar- og verndaráætlun, sem má nálgast hér.

Næstu skref í vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun eru formleg og óformleg samtöl við hagsmunaaðila. Þar er markmiðið að rýna einkenni, sérstöðu og fyrri afnot af svæðinu og ræða um möguleika til framtíðar með tilliti til samspils verndunar, nýtingar og aðgengis. Samráðsferlinu og allri vinnu við stjórnunar- og verndaráætlunarvinnuna er lýst í verkefnislýsingu, sem er opin til umsagnar fram til 3. maí og má finna hér.

Komi upp spurningar varðandi hvaðeina er varðar vinnuna framundan, er fólk hvatt til að hafa samband við verkefnastjóra í síma 575-8400 eða með tölvupósti á netfangið johanna.k.thorhallsdottir(hjá)vjp.is.

Við hvetjum ykkur til að taka þátt og hlökkum til samstarfs um magnað svæði á austurafrétt Bárðdæla!