Beint í efni

Auglýst er eftir umsóknum um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði: Rekstur veitingavagna við Jökulsárlón

Vatnajökulsþjóðgarður, kt. 441007-0940, auglýsir samkvæmt , sbr. lög nr. 100/2021 um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni, eftir umsóknum frá rekstraraðilum sem óska eftir að starfrækja veitingavagna við Jökulsárlón tímabilið 1. júní 2022 – 30. maí 2024:

2. maí 2022

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig 15. gr. a laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007.

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir eftir umsóknum frá þeim sem starfrækja vilja veitingavagna við Jökulsárlón. Vatnajökulsþjóðgarður mun gera samningar við þrjá aðila, nema færri en þrjú gild tilboð berist í auglýsingaferlinu. Skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla og sýna fram á í umsóknargögnum eru eftirfarandi:

 • Hafa reynslu af rekstri veitingavagns
 • Gert er ráð fyrir heilsárs starfsemi
 • Hafa gild starfsleyfi frá viðeigandi heilbrigðiseftirliti
 • Hafa sett sér umhverfis- og sjálfbærnistefnu sem inniheldur markmið um að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar og tryggja að náttúra þjóðgarðsins verði ekki fyrir skemmdum af völdum starfseminnar
 • Vera með skriflegar öryggisáætlanir sem ná yfir reksturinn. Öryggisáætlanirnar skulu vera í samræmi við eðli starfseminnar og tryggja að öryggi gesta sé fullnægjandi.
 • Veitingavagninn þarf að vera opinn minnst 300 daga yfir árið
 • Veitingavagninn má vera allt að 8 metra langur og þarf að vera hægt að fjarlægja/færa hann með stuttum fyrirvara
 • Veitingavagninn skal vera snyrtilegur og greinilega merktur rekstraraðilanum.
 • Hafa skráningu í fyrirtækjaskrá sé rekstraraðili ekki einstaklingur
 • Vera í skilum með opinber gjöld, þ.m.t. skattgreiðslur og lífeyrisskuldbindingar.
 • Tilboð verða útilokuð uppfylli þau ekki skilyrði um persónulegar aðstæður sem fram koma í lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup, sbr. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 100/2021

Fjárhagsstaða rekstraraðila skal jafnframt vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði.

Vatnajökulsþjóðgarður hvetur umsækjendur til að vera með vottun Vakans eða sambærilega vottun.

Tæknileg og fagleg geta rekstraraðila skal vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði.

Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt til að meta tilboð aðila ógilt sem hefur áður vanrækt skyldur sínar gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði í sambærilegri starfsemi.

Tilboðum verður tekið í samræmi við hæsta verð gildra tilboða. Tilboðsverð skulu ekki innifela virðisaukaskatt. Komi upp sú staða að tilboð tveggja eða fleiri rekstraraðila verði jöfn verður varpað hlutkesti um þau tilboð. Bjóðendur skulu fylla út tilboðsblað sem er meðfylgjandi auglýsingu þessari. Vatnajökulsþjóðgarður vekur athygli bjóðenda á því að greiða þarf mánaðarlega kr. 50.000 fyrir aðgengi að rafmagni. Ekki verður horft til þeirrar fjárhæðar við mat á tilboðum.

Nánari upplýsingar um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði og verklagsreglur um afgreiðslu umsókna má nálgast á vef Vatnajökulsþjóðgarðs www.vatnajokulsthjodgardur.is. Sjá einnig www.vakinn.is Einnig má senda fyrirspurn á póstfangið [email protected].

Umsóknum ásamt fylgigögnum skal skilað í gegnum þjónustugátt Vatnajökulsþjóðgarðs eigi síðar en 16. maí 2022 kl. 12:00. Tilboð verða opnuð þann 17. maí 2022. Með undirritun á framlögðu tilboði sínu skuldbindur bjóðandi sig til að standa við tilboð sitt í 2 vikur frá opnun.

Vatnajökulsþjóðgarður áskilur sér rétt til að vísa frá öllum umsóknum eða hafna einstökum umsóknum uppfylli þær ekki skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu þessari og/eða ef fullnægjandi gögn fylgja ekki umsókn, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð. Þá er áskilinn réttur til að hætta við auglýsingarferlið á grundvelli málefnalegra ástæðna, s.s. ef engin gild tilboð berast eða ef öll tilboð eru undir væntingum um eðlilega fjárhæð m.t.t. fyrri samninga á svæðinu.