Beint í efni

Auga Solanders fylgist með lífi nema land

Fullkomin sjálfvirk rannsóknastöð, kölluð Auga Solanders, fylgist nú með lífi nema land á Breiðamerkursandi. Markmiðið er að rannsaka hvernig gróður og dýr setjast að á landi sem kemur undan jökli.

4. október 2022

Rannsóknarstöðin á Breiðamerkursandi. Mynd: Þorvarður Árnason

Hópur vísindamanna og tæknifólks er samankominn á bökkum Jökulsárlóns. Við siglum yfir lónið fram hjá ísjökum sem brotnað hafa úr Breiðamerkurjökli en ferðinni er heitið inn á sandinn, á svæði sem jökullinn hefur yfirgefið. Þar bíður nýja fullkomna rannsóknarstöðin hlaðin ýmsum mælitækjum. Breiðamerkursandur vekur mikla forvitni vísindamanna. Það er ekki langt síðan svæði þar komu undan jökli og mjög forvitnilegt að vita hvernig landslag og dýralíf þróast á þessu nýja landi.

Rannsóknarstöðin, auga Solanders, vísar til sænska vísindamannsins Daniels Solander sem kom ásamt fleirum í rannsóknarleiðangur til Íslands fyrir 250 árum. Hún er búin myndavélum og hljóðnemum meðal annars og byggist á fjölbreyttu samstarfi. Háskóli Íslands kostar verkefnið en evrópska IK-stofnunin hannaði stöðina. Hún setti upp álíka stöð á Svalbarða og áformar fleiri til að stuðla að rannsóknum á villtri náttúru víða um heim.

„Rannsóknarstöðin hefur þann tilgang að fylgjast með öllu á afmörkuðu svæði án þess að hafa áhrif á svæðið. Þannig að menn komi hvergi nærri. Þetta er óspillt land aðeins 40-50 ára gamalt þannig að grasafræðingar í Háskólanum eru mjög áhugasamir um hvernig það þróast, hvernig uppbygging efnasambanda er í jarðveginum og loftinu. Þannig að við getum fylgst með því og fengið gögnin send beint í gegnum netið til rannsakendanna,“ segir Lars Hansen, stjórnandi IK stofnunarinnar.

„Þetta er tiltölulega nýtt land. Það eru ekki nema í kringum 50 ár síðan þetta land kom undan jökli og við sjáum rosalega mikla gróðurframvindu hérna sem er mjög sérstakt fyrir þetta svæði. Og þetta er svolítið afskekkt þannig að við erum ekki oft að koma hingað þannig að gróðurinn hefur fengið að þróast án áhrifa frá manninum. Þannig að við erum að sjá skemmtilega samsetningu af þessum plöntum sem einkenna fyrstu stig gróðurframvindunnar,“ segir Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði.

„Hér erum við að sjá lífið nema land. Búsvæði verða til. Vistkerfi verða til. Samfélög lífvera. Þetta er sem sagt alveg stórkostleg tilraunastofa í þróun lífs. Landnámi lífs,“ segir Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknarseturs HÍ á Hornafirði.

Fréttin birtist fyrst á RÚV - Sjá má fréttina og fréttainnskot hér í hlekk.