Beint í efni

Athugasemd vegna fréttar um veg í Vesturdal

Vegnafréttar á RÚV þann 19. júlí 2020 um „nýjan veg“ í Vesturdal vill Vatnajökulsþjóðgarður koma eftirfarandi á framfæri:

20. júlí 2020

,,Ekki er að öllu leyti rétt að tala um nýjan veg því endurbæturnar eru á vegi sem fyrir er. Lega vegarins er að öllu leyti óbreytt frá því sem áður var og hann hvorki lengri né styttri.
Vegurinn verður áfram einbreiður en nú með útskotum til mætinga. Vegurinn verður lagður 3,5 m breiðu slitlagi. Gert er ráð fyrir að hámarkshraði verði 15-30 km/klst.
Hönnuðir Vegagerðarinnar hafa leitast við á láta veginn sem mest elta landslagið umhverfis hann. Veghækkun er þó helst áberandi á um 250 m kafla þar sem vegurinn liggur niðri í dalnum meðfram Vesturdalsá. Þar er veginum lyft upp til að verja hann gegn vatnsskemmdum.
Til að draga úr sjónrænum áhrifum verða vegkantar klæddir svarðlagi þar sem það á við. Viðbúið er að innan fárra ára verði hækkunin nánast ósýnileg vegna trjágróðurs í köntum. Ásýnd vegarins á framkvæmdatíma gefur ekki raunsanna mynd af endanlegri útkomu.
Vegagerðin og Vatnajökulsþjóðgarður höfðu samráð um endurbætur á veginum að Hljóðklettum. Vatnajökulsþjóðgarður samþykkti endurbæturnar með þeim skilyrðum að vegurinn yrði áfram einbreiður, í sama vegstæði og lægi lágt í landinu. Vegagerðin hefur fylgt þeim skilyrðum eins vel og hönnuðir hennar telja raunhæft.
Nýr vegur og bílastæði á Langavatnshöfða munu að einhverju leyti vega upp á móti aukinni umferð um Dettifossveg og ásókn í Vesturdal/Hljóðakletta. Hins vegar mun sú framkvæmd aldrei afnema að fullu þörfina fyrir aðgengi að Hljóðaklettum frá núverandi bílastæði í mynni Vesturdals. Búast má við að umferð að Hljóðaklettum jafnvel fjórfaldist á komandi árum og því er afar mikilvægt að innviðir á svæðinu séu í stakk búnir að mæta þeirri áskorun. Gönguleið og útsýnispallur á Langavatnshöfða munu taka stóran hluta af umferðinni en líklega þó aldrei þannig að dagsumferð niður í Vesturdal minnki frá því sem nú er.
Vatnajökulsþjóðgarður skilur vel áhyggjur þeirra sem unna Vesturdal vegna endurbóta á veginum um dalinn. Til marks um það hefur í vetur og vor farið fram umræða innan þjóðgarðsins um það hvernig stýra megi umferð um Vesturdalsveg með það að sjónarmiði að tryggja kyrrð og bæta upplifun tjaldgesta. Sú staðreynd að Vesturdalur er innan þjóðgarðs veitir einmitt tækifæri til þannig stýringar.''

Fyrir hönd Vatnajökulsþjóðgarðs,

Guðmundur Ögmundsson
þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum