Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Ætlar þú að heimsækja Skaftafell eða Jökulsárlón í sumar?

Ætlar þú að skoða ísjakana á Jökulsárlóni eða virða stuðla Svartafoss fyrir þér? Hér eru nokkur góð ferðaráð áður en lagt er af stað.

17. júlí 2023

Skaftafell

Náttúrufegurð, veðurskilyrði, úrval gönguleiða og góð þjónusta gera Skaftafell að kjöráfangastað þeirra sem vilja njóta útivistar í íslenskri náttúru. Allir eiga að geta fundið leið við sitt hæfi. Stuttar og auðveldar leiðir liggja að Svartafossi og Skaftafellsjökli, en fyrir þá sem vilja fara lengra eru Morsárdalur, Skaftafellsheiði og Kristínartindar helstu áfangastaðir.

Jökulsárlón

Sjónarspil hörfandi jökla, lóna og ísjaka dregur ferðafólk hvaðanæva að. Jökulsárlón og Fjallsárlón eru þar af leiðandi með vinsælli ferðamannastöðum landsins. Strandlengjan frá Kvíármýrarkambi og alla leið að Höfn býður upp á einstaka nálægð við Vatnajökul. Jökulmótað landslagið og fjaran skapa aðstæður fyrir fjölbreytt dýralíf, rannsóknir og ferðamennsku.

Svæðisgjöld

Skaftafell og Jökulsárlón eru einstakar náttúruperlur og með fjölsóttustu ferðamannastöðum Íslands. Á báðum svæðum eru innheimt svæðisgjöld af bifreiðum sem þangað koma. Þjónusta sem gestir fá aðgang að með greiðslu svæðisgjalds felst í landvörslu, salernisaðstöðu (þrif, rekstur, viðhald búnaðar og losun rotþróa), sorphirðu og almennri umhirðu svæðis. Einnig rennur innheimt gjald til úrbóta á aðstöðu og aðgengi, viðhalds stíga, merkinga, viðhalds bílastæða, snjómoksturs og hálkuvarna.

Svæðisgjaldið er lagt á þegar ökutæki kemur inná bílastæði og er upphæð háð stærð bifreiðar. Er það gert á þeim grundvelli að samhengi sé á milli mögulegs farþegafjölda og stærðar hlutaðeigandi ökutækis, sem endurspegli hlutdeild í þeirri þjónustu sem gjaldtakan í heild byggist á.