Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

100 ára afmæli rafstöðvanna í Skaftafelli

Haldið var upp á 100 ára afmæli rafstöðvanna í Skaftafelli 23.október. Dagskráin hófst við rafstöðina í Vestragili, en síðan var farið að Hæðum og aðstæður skoðaðar við virkjunina sem þar hafði verið.

18. nóvember 2025
Hópurinn við rafstöðina í Vestragrili.

Haldið var upp á 100 ára afmæli rafstöðvanna í Skaftafelli 23.október 2025. Dagskráin hófst við rafstöðina í Vestragili, en síðan var farið að Hæðum og aðstæður skoðaðar við virkjunina sem þar hafði verið. Stiklað var á stóru í sögu rafvæðingar á Íslandi og virkjananna tveggja í Skaftafelli. Einnig var farið yfir söguna af því þegar virkjunin í Vestragili var endurbyggð árið 2002. Hópurinn tók vel undir í fjöldasöng og að lokum var boðið upp á ljúffengar veitingar á heimili þjóðgarðsvarðar í Hæðum.

Fyrsta raflýsingin á Íslandi kom í árslok 1904, fyrsta raflýsing í sveit árið 1913 og fyrsta raflýsing í Öræfum kom á Fagurhólsmýri árið 1922 þegar Helgi Arason setti upp sína fyrstu, en ekki síðustu virkjun.

Árið 1925 voru reistar tvær virkjanir í Skaftafelli og voru þær báðar gangsettar í nóvember það ár. Fyrstu virkjanirnar í Öræfum voru afllitlar, þess vegna var iðulega hver bær með sína eigin virkjun.

Rafstöðin í Vestragili var fyrir Bölta, en rafmagnið reyndist vera nægilega mikið til að hægt var að leggja raflínu líka að Seli. Rafstöðin var með 3,45kw rafal og Francis hverfil (túrbínu) frá Danmörku. Trépípurnar voru heimasmíðaðar og fallhæðin 12 metrar. Skarphéðinn Gíslason á Vagnsstöðum í Suðursveit pantaði vélarnar og annað efni, en Bjarni Runólfsson á Hólmi í Vestur-Skaftafellssýslu kom stöðinni upp. Helgi Arason á Fagurhólsmýri í Öræfum kom einnig að uppsetningunni, Skaftfellsku hagleiksmennirnir sem komu upp virkjunum í báðum sýslum unnu oft saman.

Helgi Arason á Fagurhólsmýri setti upp rafstöðina í Hæðum árið 2925. Rafallinn var 1 kw og hverfillinn smíðaður af Helga sjálfum, hann steypti skóflurnar í túrbínuna sem var af Pelton gerð. Trépípurnar voru heimasmíðaðar og fallhæðin 28m. Bæjarlækurinn við Hæðir var ekki nægilega vatnsmikill til að knýja öfluga rafstöð en það munaði miklu að fá ljós. Í næsta húsi við rafstöðina var verkstæði og hægt var að tengja rennibekk og fleiri tæki við túrbínuna: þá var reimin tekin af rafalinum og rennibekkurinn tengdur í staðinn.

Í bók Ragnars Stefánssonar í Hæðum, fyrsta þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli, er vikið að raflýsingunni með þessum orðum: „Svo langt sem sögur herma hafa menn á bæjum hér nýtt sér ýmislegt úr strönduðum skipum. Í gömul strönd, löngu landföst, sótti Helgi á Fagurhólsmýri sér ýmislegt til túrbínusmíði og annars sem rafstöðvum tilheyrði. Það og hið mikla framtak og dugnaður Helga varð til þess að raflýst var í Öræfum mörgum öðrum sveitum fyrr“.

Sigrún Sigurgeirsdóttir leiðir hópinn niður í Vestragil.

Rafmagn frá Smyrlabjargarárvirkjun var leitt í Öræfin á árunum 1972-74 og uppúr því minnkaði vægi heimarafstöðva og margar lögðust af. Þó tilkoma heimarafstöðva hefði verið mikið framfaraskref þá voru flestar þeirra afllitlar og framleiðslan í þeim háð vatni í lækjunum sem virkjaðir höfðu verið og stundum var tíðarfar þannig að vatnið nægði ekki fyrir framleiðsluna, dæmi eru um að það hafi verið skrúfað fyrir rafmagnið að Seli þegar vatnsstaðan var lág. Þegar frá leið vaknaði áhugi fyrir að gera upp rafstöð í Skaftafelli og túrbínan úr rafstöðinni fyrir Bölta var send suður þar sem átti að yfirfara hana, en fyrir einhver mistök þá glataðist hún.

Seinna var þó settur kraftur í verkefnið og rafstöðin var endurbyggð árið 2002.

Þegar Ragnar Frank Kristjánsson var orðinn þjóðgarðsvörður í Skaftafelli fóru þeir Bjarni Þór Jakobsson rafvirki frá Bölta í Skaftafelli á fulla ferð með endurgerð rafstöðvarinnar. Bjarni vissi að Skarphéðinn á Vagnstöðum hafði pantað túrbínu fyrir rafstöðina í Syðra-Firði í Lóni á sama tíma og hann pantaði fyrir stöðina í Skaftafelli, og að rafstöðin í Firði var ekki lengur í notkun. Með góðra manna hjálp fann Bjarni búnaðinn og fékk til notkunar í Skaftafelli þar sem hann sá um að tengja rafal og túrbínu í endurgerða stöðvarhúsinu en margir lögðu hönd á plóg í verkefninu: Anna María Ragnarsdóttir gaf rekavið af Skaftafellsfjöru til að byggja úr, Magnús Lárusson hlóð upp tóft stöðvarhússins og sótti rekavið á Skaftafellsfjöru ásamt Ragnari og Benedikt Steinþórssyni í Svínafelli sem endurbyggði rafstöðvarhúsið, smíðaði vatnsrörin og steypti stíflu, Guðmundur á Þvottá og Haukur Elísson á Starmýri söguðu rekaviðinn, Ragnar Þrúðmarsson á Miðfelli og Einar Torfason í Haga sáu um hleðslu á aðrennslisskurði, Þorlákur Magnússon í Svínafelli sá um vélavinnu af ýmsu tagi og fleiri lögðu verkinu lið á einn eða annan hátt. Ragnar sótti um styrki fyrir uppgerð rafstöðvarinnar og Rarik greiddi helming kostnaðarins, en Árni Benediktsson sem ættaður er úr Hæðum hafði milligöngu um að Landsvirkjun greiddi hinn helminginn. Gömlu vinnubrögðin voru höfð í heiðri þegar rafstöðin í gilinu var endurgerð og bæði horft til mynda og verklýsinga frá fyrri tíð. Haldin var mikil hátíð í ágúst árið 2002 þegar endurgerða rafstöðin var vígð, þar voru ræðuhöld, harmonikkuleikur og í kringum 100 gestir tóku þátt í veisluhöldunum.

Árið 1930 birtist í dagblaðinu Tímanum greinin Birtan og ylurinn, þar skrifar Ragnar Ásgeirsson um það sem honum þótti eftirtektarverðast á ferð sinni frá Djúpavogi til Reykjavíkur: „Það líður óðum að því að listasmiðir þeirra Skaftfellinga ljúki við að raflýsa og hita býlin í sveitinni sinni, … Seint býst ég við að hann líði mér úr minni, rafljósabjarminn yfir bæjunum í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum. … Eftirtektarverðast við þessar rafveitur Skaftfellinga er það að þeir hafa sjálfir sett þær upp… meira að segja hafa þeir smíðað margt til rafstöðvanna sjálfir, t.d. jafn vandasama hluti og túrbínurnar.“ Hann bætir við að það sé gaman að koma í smiðju Helga Arasonar á Fagurhólsmýri „ Strandaða togara rífur Helgi í sundur og flytur járnið heim og notar það í túrbínurnar og fleira … Menn eins og Bjarni á Hólmi, Helgi á Mýri, Sigfús á Geirlandi og Guðmundur í Vík í Mýrdal eru víkingar hins nýja tíma!“. Það má alveg taka undir með greinarhöfundi varðandi þessa heiðursmenn, en þarna vantar reyndar nafn Skarphéðins á Vagnsstöðum inn í hóp brautryðjendanna og auðvitað hefði mátt nefna enn fleiri til sögunnar.

Gangan endaði við Hæðir í Skaftafelli þar sem þjóðgarðsvörður hefur aðsetur.

Myndir: Jón Ágúst Guðjónsson

Afmæli rafstöðvanna í Skaftafelli ber upp á 50 ára afmæli Evrópska húsverndarársins og er hluti af Menningarminjadögum Evrópu. Áhrif rafvæðingarinnar voru nefnilega víðtæk: það hafði jákvæð áhrif á búskapinn að geta notað tað sem áburð á tún í stað þess að brenna því í eldavélunum, og þegar rafmagnið gerði fólki kleyft að hita vatn á eldavél allan sólarhringinn, þá varð auðveldara að hita bæði fólk og híbýli. Hæfilegur hiti í húsum hjálpar til við endingu þeirra, og innbúsins í þeim, en á þeim tíma sem rafvæðing Öræfanna stóð yfir bjuggu sveitungarnir í torfbæjum og með reglulegu millibili þurfti að byggja þá upp.