Beint í efni

Þingeyjarsveit formlegur aðili að Gíg og opnun á verkinu Landvörður

Þann 23. júní síðastliðinn var verkið Landvörður eftir Jessicu Auer opnað í gestastofunni Gíg og undirritaður samningur við Þingeyjarsveit um aðild að starfsemi í Gíg.

30. júní 2023

Landvörður

Landvörður er verk eftir listakonuna Jessicu Auer sem áður hefur verið sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Verkið mun vera til sýnis í gestastofunni í Gíg í sumar.
Jessica Auer er kanadísk listakona sem hefur verið búsett á Íslandi og í Kanada um árabil. Hún er því heimamanneskja en þekkir landið vel sem gestur sömuleiðis. Jessica hefur ferðast um Ísland síðustu ár með augum beggja og varpar upplifun sinni fram í fallegum og áhrifamiklum ljósmyndum og myndböndum af landslagi, landvörðum og gestum friðlýstra svæða. Sigrún Alba Sigurðardóttir semur textann sem leiðir okkur í gegnum sýninguna og sýningarstjóri verksins í Gíg er Ragnhildur Ásvaldsdóttir.

„Verkið Landvörður fjallar um sameiginlega ábyrgð okkar allra á náttúrunni. Það sýnir okkur bæði hvernig við snertum landið og hvernig við leyfum því að snerta okkur, hreyfa við okkur. Landvörður fjallar þó ekki aðeins um þau sem vernda landið og þau sem nýta landið heldur líka um landið sjálft og lífshætti okkar á jörðinni, hvernig allt tengist og flæðir saman. Við erum óteljandi eindir sem eiga sér ótal snertifleti, erum öll hluti af heild“ Sigrún Alba Sigurðardóttir.

Einungis hluti verksins er settur upp í Gíg þar sem salurinn er ekki fullkláraður en ómótaðir styrkleikar rýmisins, eins og birtan og lofthæð, nýtist skemmtilega í útsetningunni.

Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdarstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar skrifa undir samning um aðstöðu í Gíg.

Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdarstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar skrifa undir samning um aðstöðu í Gíg.

Samningur um aðstöðu í Gíg

Með þessum samningi verður Þingeyjarsveit formlegur aðili að því skemmtilega starfi sem nú er að byggjast upp í Gíg. En Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarður, Landgræðslan og Náttúrurannsóknastöð við Mývatn eru hluti af starfinu. Í gegnum Þingeyjasveit mun svo Þekkingarnet Þingeyinga og Háskólasetursins Hulda öðlast formlegan aðgang inn í Gíg.