Beint í efni

Rannsóknir

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við vísindasamfélagið er bæði lögbundið og afar verðmætt. Unnið er að fjölþættum rannsóknum í síkvikri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs ár hvert.

Rannsóknarleyfi

Eitt af markmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að stuðla að rannsóknum á svæðinu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 skal afla leyfis þjóðgarðsvarðar vegna allra verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, þ.m.t. vegna rannsókna innan þjóðgarðsins. Sækja þarf um leyfi samkvæmt þessu fyrir allar rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í Vatnajökulsþjóðgarði sem eru ekki á vegum þjóðgarðsyfirvalda eða hluti af framkvæmd samþykktrar stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins. Þeir sem hyggjast stunda rannsóknir innan þjóðgarðsins þurfa jafnframt að gæta að því að sækja um tilskilin leyfi til rannsókna frá öðrum aðilum, svo sem ef um er að ræða rannsóknir á örverum á jarðhitasvæðum, sjá 34. gr. laga nr. 57/1998, rannsóknir á steingervingum, sjá 60. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 eða rannsóknir á friðlýstum plöntu- eða dýrategundum. Ef flytja á út náttúrugripi (rannsóknarsýni getur fallið undir hugtakið náttúrugripur) þarf leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, sjá 15. gr. laga nr. 60/1992. Þeir sem hafa hug á að stunda rannsóknir samkvæmt 1. gr. í þjóðgarðinum skulu fylla út umsókn um leyfi og senda hana til ábyrgðaraðila umsókna. Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.

Hér er brot af gagnlegum tenglum ásamt birtum greinum og rannsóknum sem snerta á náttúru og ferðamennsku innan þjóðgarðsins.