Skip to content

Umhverfisstefna

Sjálfbær þróun og vernd náttúrunnar er höfð að leiðarljósi í allri starfsemi, samvinnu og ákvarðanatöku stofnunarinnar. Stefna Vatnajökulsþjóðgarðs er að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum.

Stofnunin mun leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu. Markmiðið er að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Til að ná sem bestum árangri eru umhverfisþættir þjóðgarðsins vaktaðir og markvisst unnið að umbótum.

Vatnajökulsþjóðgarður mun tryggja að lagalegum kröfum sem tengjast starfsemi hans sé fylgt og vinnur að stöðugum umbótum á umhverfisstarfi stofnunarinnar. Vatnajökulsþjóðgarður mun vinna samkvæmt gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi sem uppfyllir kröfur ISO 9001 og ISO 14 001.

Umhverfisstjórnun

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fyrirtæki og stofnanir innleiði umhverfisstjórnun (skipulagt umhverfisstarf) í starfsemi sinni. Slíkt starf hefur leitt til margs konar ávinnings s.s. betri nýtingar aðfanga, bættrar ímyndar, sparnaðar og ánægðara starfsfólks.
Umhverfisstjórnun felur í sér að unnið er skipulega með umhverfisþætti starfseminnar og að stöðugum umbótum í samræmi við umhverfisstefnu. Fyrsta skrefið í að innleiða umhverfisstjórnun er að vinna „umhverfisúttekt“ þar sem skilgreindir eru þýðingarmiklir umhverfisþættir í starfseminni. Á grundvelli úttektarinnar er mótuð umhverfisstefna og sett fram markmið og framkvæmdaáætlun fyrir umhverfisstarfið.

Við mótun framtíðarsýnar fyrir Vatnajökulsþjóðgarðs hefur stjórn og hagsmunaaðilar lagt ríka áherslu á að þjóðgarðurinn verði til fyrirmyndar hvað varðar innra umhverfis- og gæðastarf.

Samhliða vinnu við stjórnunar- og verndaráætlunina var unnin umhverfisúttekt á innra starfi Vatnajökulsþjóðgarðs og nýttust niðurstöðurnar við þá mótun. Í umhverfisúttektinni voru kortlögð umhverfisáhrif í innra starfi þjóðgarðsins og rekstri honum tengdum auk þess sem mikilvægi umhverfisþáttanna var metið. Niðurstöðurnar gefa skýra mynd af þýðingarmiklum umhverfisþáttum og hvaða aðgerðir eru mikilvægastar til að stuðla að vistvænum rekstri þjóðgarðsins.

Þýðingarmiklir umhverfisþættir í rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs eru:

  • Ferðir á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Innkaup á þjónustu
  • Úrgangsmál
  • Frárennsli

Með umhverfisúttektinni er byggður góður grunnur að innleiðingu umhverfisstjórnunar í innra starfi þjóðgarðsins. Hér er að finna samantekt á umhverfisúttektinni fyrir Vatnajökulsþjóðgarðs sem unnin var í mars 2010 [PDF 562 KB].