Skip to content

Ársskýrsla 2019

Samvinna og samstaða

Á árinu 2019 gekk starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs vel. Flest markmið sem sett voru varðandi verkefni og þjónustu við ferðamenn. Starfið einkenndist af samstöðu starfsmanna þar sem sparnaður og hagsýni var höfð að leiðarljósi. Um leið var stöðugt unnið að umbótum og nýsköpun í starfseminni.

Á árinu 2019 vann Ríkisendurskoðun úttekt á starfsemi og stjórnskipulagi Vatnajökulsþjóðgarði að beiðni stjórnar og framkvæmdastjóra. Skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út í lok október 2019 og hefur hún nýst mjög vel í því umbótastarfi sem hefur verið hjá Vatnajökulsþjóðgarði undanfarið. Í skýrslunni er bent á nauðsyn þess að efla miðlæga skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Á árinu 2019 voru því stigin mikilvæg skref í þá átt með ráðningu sérfræðings á skrifstofu, fræðslufulltrúa og mannauðsstjóra. Auk þess sem auglýst var starf mannvirkja og gæðafulltrúa í lok árs. Þessi liðsauki er mikilvægur til að efla þjónustu og faglegan stuðning við einstök svæði þjóðgarðsins. Auk þess að styrkja miðlæga skrifstofu þá var markvisst unnið að því að skilgreina betur ferla og verklag hjá stofnuninni ásamt því að vinna að ýmiss konar stefnumótun.

Hápunkturinn í starfi Vatnajökulsþjóðgarðs á árinu 2019 var þegar Heimsminjaráð UNESCO samþykkti einróma á 43. fundi ráðsins í Baku í Aserbaídsjan að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá.

Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi voru undanþegin í tilnefningunni vegna þess að ekki er lokið vinnu við friðlýsingu en svæðið getur komið inn síðar. Í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu, eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem einstakt er talið á heimsvísu. Skráning Vatnajökuls á heimsminjaskrá er mikilvægt skref í verndun og viðurkenningu svæðisins til framtíðar.

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins. Með því að setja fram atvinnustefnu sem var samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs í lok júní 2019 útskýrir þjóðgarðurinn hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað.

Vatnajökulsþjóðgarður er ein af stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er góð samvinna við ráðuneytið ákaflega mikilvæg. Ýmis mikilvæg samskipti og samvinna voru við ráðuneytið á árinu 2019 og má t.d. nefna uppbyggingu innviða í Vatnajökulsþjóðgarði og forystu ráðuneytisins við stækkun þjóðgarðsins með svæði Herðubreiðarlinda.

Framtíðin er björt hjá Vatnajökulsþjóðgarði sem helgast ekki síst af því að hjá þjóðgarðinum starfar öflugur hópur starfsmanna sem hefur einstaka reynslu og þekkingu við að byggja upp og reka einn stærsta þjóðgarð í Evrópu sem er sannarlega einstakur á heimsvísu

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, apríl 2020

Árið 2019 í Vatnajökulsþjóðgarði

Suðursvæði - Skaftafell

Eftir rólyndisvetur tók við ljúft og sólríkt sumar í Skaftafelli. Reyndar svo ljúft að hluti tjaldsvæðisflata brann í þurrkinum. Heilt á litið var fækkun gesta í Skaftafelli og á tjaldsvæðinu frá árinu áður. Yfir sumarið voru 9 landverðir, 6 verkamenn, 9 þjónustufulltúar í gestastofu og á tjaldsvæði ásamt 3 þjónustufulltrúum í minjagripaverslun. Breyting varð á vaktafyrirkomulagi starfsmanna á Breiðamerkursandi en í stað þess að vera staðsettir á Hrolllaugsstöðum eru þeir nú í Skaftafelli og rúlla vaktir starfsmanna á báðum starfsstöðvum. Í ágúst hóf húsvörður störf, í nóvember flutti fræðslufulltrúi Vatnajökulsþjóðgarðs skrifstofuaðstöðu sína í Skaftafell og í lok árs var yfirlandvörður í Skaftafelli fastráðinn.

Suðursvæði - Breiðamerkursandur og Höfn

Stóru málin á austurhluta suðursvæðis árið 2019 voru öll tengt Breiðamerkursandi. Samstarfssamningur var gerður við Háskólasetrið á Hornafirði um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Breiðamerkursand og fylgdi því verkefni öflugt samráð og samstarf ráðgjafahópsins, starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs og hagsmunaaðila á svæðinu. Verkefninu átti að ljúka í lok árs en hefur dregist örlítið á langinn og mun vinnunni ljúka á vormánuðum 2020.

Vestursvæði

Árið 2019 var okkur ljúft á vestursvæðinu. Sumarið var langt og gott, hálendið snjólaust og þurrt mun fyrr en venjulega og við vorum tilbúin að taka á móti áhugasömum gestum upp úr 10. júní á fyrstu hálendisstöðvarnar. Að jafnaði voru sex landverðir að störfum til fjalla og fleiri yfir háönnina. Í Skaftárstofu, gestastofunni á Kirkjubæjarklaustri, var í fyrsta skipti, heilsársopnun og fastráðinn starfsmaður, sem fékk liðsauka yfir sumartímann. Þetta var langþráður áfangi og nú eru þrjár heilar stöður við þjóðgarðinn á vestursvæði, auk sumarstarfa.

Austursvæði

Sumarið 2019 var ljómandi á austursvæði sérstaklega með tilliti til innra skipulags, samskipta og verklags. Snæfellsstofa opnaði í apríl og fóru gestir að streyma frá Seyðisfirði. Hefð er komin fyrir því að rútuhópar úr Norrænu komi í gestastofuna vor og haust, þar sem tekið er á móti hópunum með fræðslu um þjóðgarðinn og nærsvæði hans. Hálendisstöðvar opnuðu í fyrra lagi og haustið var gott en fjármagn skorti til að sinna landvörslu þar til hálendið lokaði vegna snjóa. Aukin þátttaka var í fræðslugöngum í Krepputungu. Sjálfboðaliðar aðstoðuðu við stígagerð og frágang við Snæfellsskála og í Krepputungu. Um sex landverðir voru að jafnaði að störfum á hálendinu og tveir til þrír við Snæfellsstofu og Hengifoss yfir háönn. Gestum Snæfellsstofu fjölgaði á milli ára um 9% og viðvera og verkefni landvarða voru aukin við Hengifoss.

Norðursvæði - Hálendi

Á norðurhálendi var sumarvertíðin 2019 nokkuð löng, því snjólítið var að vori og veturinn kom seint. Dvöldu landverðir því lengur á svæðinu en vanalega, frá 6. júní til 11. október.

Norðursvæði - Jökulsárgljúfur

Óhætt er að segja að veður og tíðafar hafi sett mark sitt á árið 2019 í Jökulsárgljúfrum, sér í lagi um sumarið sem var fremur blautt og sólarlítið. Á hinn bóginn voru bæði vorið og haustið með besta móti.