Dettifossvegur
Dettifossvegur tengir saman Mývatnsöræfi og Kelduhverfi. Hann liggur vestanmegin Jökulsár á Fjöllum og hefur vegnúmer 862. Vegurinn er malbikaður og opinn allt árið um kring, svo framarlega sem veður og aðstæður leyfa. Meðfram veginum eru fimm aðgengilegir útsýnis- og áningarstaðir þar sem komið hefur verið upp fræðsluskiltum sem segja frá þeim náttúrkröftum sem skópu Jökulsárgljúfur og eru margir enn að verki í dag.
1. útsýnisstaður: Í Sveinahrauni
Fyrsti útsýnisstaður á leiðinni er í Sveinahrauni, töluvert sunnan þjóðgarðsmarka Jökulsárgljúfra. Þar eru þrjú fræðsluskilti. Sveinshraun rann úr Sveinagjá sem liggur nær alveg frá Öskju, um Hraundal og Hafragil og til sjávar yst á Melrakkasléttu.
2. útsýnisstaður: Dettifoss
Annar útsýnisstaður á leiðinni er við Dettifoss. Fræðsluskiltin eru staðsett á útsýnispalli en þangað er um 1000 m ganga frá bílastæðinu. Gönguleiðin er greiðfær flestum en unnið er að því að gera leiðina færa hjólastólum.
3. útsýnisstaður: Ytra-Þórunnarfell í Hólmatungum
Þriðja stopp á leiðinni er í Hólmatungum. Malbikaður göngustígur liggur frá bílastæði að útsýnsstað á Ytra-Þórunnarfelli þar sem fræðsluskiltin eru staðsett. Leiðin er um 300 m löng frá bílastæði.
4. útsýnisstaður: Miðdegishæð
Fjórði útsýnisstaðurinn með fram Dettifossvegi er við Miðdegishæð. Þaðan er gott útsýni norður yfir Svíndal, Vesturdal og Hljóðakletta. Frá bílastæði að útsýnisstað, þar sem tvö fræðsluskilti eru staðsett, eru um 60 metrar.
5. útsýnistaður: Langavatnshöfði
Síðasti útsýnisstaðurinn er á Langavatnshöfða en þaðan er gott útsýni yfir Hljóðakletta, Rauðhóla og Jökulsá á Fjöllum. Frá bílastæði að útsýnisstað, þar sem þrjú fræðsluskilti eru staðsett, liggur um 300 m malbikaður göngustígur.