Skip to content

Áætlun vegna skráningar Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO 2020-2025

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og er kominn á heimsminjaskrá á grunni 8. viðmiðs UNESCO sem krefst þess að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvæg stig í þróun jarðarinnar.

Í Vatnajökulsþjóðgarði fara saman skil jarðskorpufleka, möttulstrókur sem færir heita kviku úr iðrum jarðar til yfirborðs og hveljökull. Ferlarnir sem um ræðir eru skorpuhreyfingar, eldvirkni og jöklunarferlar og samspil þeirra skapar einstök átök elds og íss. Viðlíka samspil er hvergi þekkt í veröldinni á þessum tímapunkti jarðsögunnar. Landformin sem af þessum átökum leiða og finnast í ríkum mæli í Vatnajökulsþjóðgarði eru m.a. langar gígaraðir, móbergshryggir, dyngjur og móbergsstapar, árgljúfur og jökulsandar.

Um UNESCO

Árið 1972 var Heimsminjasamningur Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) undirritaður. Hluti samningsins er svokölluð heimsminjaskrá sem hvílir á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi ótvírætt alþjóðlegt gildi í menningarlegu eða náttúrufarslegu tilliti og þá beri að vernda sem sameiginlega arfleið mannkyns. Heimsminjar eiga oftar en ekki stóran sess í sögu og sjálfsmynd þjóða og þar af leiðandi heimsins. Ísland fullgilti heimsminjasamninginn í desember 1995. Ráðuneyti mennta- og menningarmála og umhverfis- og auðlindamála bera ábyrgð á samningnum hér á landi og hafa frá upphafi unnið náið saman að innleiðingu hans.

Á heimsvísu hafa náttúru- og menningarminjar verið í mikilli hættu vegna heimsstyrjalda, þéttbýlismyndunar, fátæktar, mengunar og náttúruhamfara. Einnig hafa nýir áhættuþættir bæst við, svo sem loftslagsbreytingar og aukin ásókn ferðamanna, en helsta ógnin sem steðjar að menningarminjum heimsins er þó vanræksla.

Til að komast á heimsminjaskrá UNESCO þarf staður eða fyrirbæri að hafa það sem kallað er einstakt gildi á heimsvísu (Outstanding Universal Value). Þetta einstaka gildi getur verið tengt menningarlegum þáttum eða náttúrufari. Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrána á fundi heimsminjanefndarinnar í Bakú í Aserbaídsjan hinn 5. júlí 2019 á grundvelli einstakrar náttúru. Fyrir átti Ísland tvo staði á heimsminjaskrá, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008). Einnig má nefna UNESCO jarðvangana, Reykjanes jarðvang (2012) og Kötlu jarðvang (2010). Það eru svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvæg á heimsvísu er sérstaklega stýrt.

Eftirfarandi áætlun er ætlað að varpa ljósi á þau verkefni sem unnið er að hjá Vatnajökulsþjóðgarði vegna skráningar þjóðgarðsins á heimsminjaskrá UNESCO og er gert ráð fyrir að hún verði uppfærð með reglulegum hætti.