Umsóknir um samninga um atvinnutengda starfsemi

Samkvæmt 1. mgr. 32. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig 15. gr. a. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Atvinnutengd starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði er skilgreind í reglugerðinni sem þjónusta sem aðrir en þjóðgarðurinn sjálfur bjóða gegn þóknun innan marka þjóðgarðsins. Hefðbundin landnýting innan þjóðgarðs og starfsemi henni tengd telst ekki atvinnutengd starfsemi. Í viðauka aftast í verklagsreglu VLR-049 eru tilgreind dæmi um hvaða starfsemi fellur undir kröfu um samning við þjóðgarðinn og hvaða starfsemi er undanþegin.

Atvinnutengd starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði skiptist í eftirfarandi flokka:

  1. Starfsemi sem er þess eðlis að ekki er þörf á að setja sérstakar takmarkanir varðandi umfang eða fjölda rekstraraðila sem sinna sambærilegri starfsemi innan þjóðgarðsins eða einstakra svæða hans.
  2. Starfsemi sem er þess eðlis að þörf er á að takmarka umfang eða fjölda þeirra rekstraraðila sem sinna sambærilegri starfsemi innan þjóðgarðsins eða tiltekinna svæða hans.

Ef starfsemi þarfnast aðstöðu og/eða mannvirkja innan Vatnajökulsþjóðgarðs gildir verklagsregla nr.... (er í vinnslu) jafnframt um meðferð umsóknarinnar. Alla jafna skal samningur bæði ná til starfrækslu starfsemi og nýtingar aðstöðu/lands. Sérstakur lóðaleigusamningur skal þó gerður um leigu á lóðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs sbr. verklagsregla nr. ...(er í vinnslu).

Atvinnustarfsemin þarf einnig að vera starfrækt í samræmi við lög um Vatnajökulsþjóðgarð, reglugerð þjóðgarðsins og aðra löggjöf sem um viðkomandi starfsemi gildir, þ.m.t. lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim.

Samkvæmt lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018 ber hverjum þeim sem hyggst framkvæma skipulagðar ferðir á íslensku yfirráðasvæði að hafa öryggisáætlanir fyrir sínar ferðir.  Sjá nánar á vefsíðu Ferðamálastofu. 

 

 SÆKJA UM LEYFI Í ÞJÓNUSTUGÁTT

 

Ef það eru einhverjar athugasemdir við drög að verklagsreglum eða umsóknarferli þá er hægt að senda inn athugasemdir á netfangið leyfi@vjp.is.