Atvinnustefna

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins en sérstakt ákvæði þess efnis kom inn í lög um þjóðgarðinn við breytingu árið 2016.  

 

Sú atvinnustefna sem hér er sett fram lýsir afstöðu þjóðgarðsins til tiltekinna grundvallaratriða sem varða samstarf við atvinnulífið en auk hennar þarf reglugerð að innihalda ákvæði sem varða málsmeðferð. Einnig er mikilvægur grunnur í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins því þar er skilgreint hvernig þjónustu og aðgengi í þjóðgarðinum skuli háttað, þar á meðal hámarksumfang starfsemi á hverjum stað, ef ástæða er til.

Í atvinnustefnunni eru dregnar upp meginlínur en ýmislegt þarfnast nánari útfærslu og samráðs við hagaðila. Í þeim efnum þarf að tryggja sanngjarna niðurstöðu fyrir þá sem þegar veita þjónustu innan þjóðgarðsins.

Atvinnustefna Vatnajökulsþjóðgarðs var samþykkt af hálfu þjóðgarðsins 24. júní 2019. Í henni er lýst afstöðu þjóðgarðsins til tiltekinna grundvallaratriða sem varða samstarf við atvinnulífið og framangreinda samningagerð.

 

Stjórn þjóðgarðsins vann að mótun atvinnustefnu til að tryggja tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila við mótun hennar, samhliða vernd þjóðgarðsins.  Lögð var áhersla á að eiga gott samstarf við alla þá sem nýta þjóðgarðinn beint eða óbeint til atvinnusköpunar.  Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs lagði fram drög að atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og óskað var eftir skriflegum ábendingum og athugasemdum í síðasta lagi 1. maí 2019. Samráðsfundir voru haldnir á öllum rekstrarsvæðum og í Reykjavík í febrúar og byrjun mars ásamt vefkönnun sem var opin til 12. mars 2019.  Miklar upplýsingar söfnuðust um viðhorf þátttakenda til ýmissa spurninga sem beint eða óbeint snertu atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum og að lokum var atvinnustefna samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs 24. júní 2019

Innleiðing atvinnustefnu

Af hálfu Vatnajökulsþjóðgarðs er nú unnið að innleiðingu atvinnustefnunnar. Í því felst m.a. gerð verklagsreglna og leiðbeininga um framkvæmd stjórnsýslu er snýr að samningagerð vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum og útgáfu leyfa. Jafnframt er unnið að undirbúningi rafrænnar stjórnsýslu.

Leitast er við að hafa náið samráð við hagsmunaaðila og aðra við innleiðingu atvinnustefnunnar og mótun stjórnsýslu. Meðal yfirlýstra markmiða sem fram koma í atvinnustefnunni er að öll ákvarðanataka skuli vera gegnsæ, skilvirk og málefnaleg og að sanngjarn fyrirvari skuli hafður á öllum ákvörðunum sem líklegar eru til að snerta atvinnutengda hagsmuni. Þá skal samráð við hagsmunaaðila vera virkt, skipulagt og til þess fallið að leiða í ljós mikilvæg úrlausnarefni í samskiptum þjóðgarðsins við atvinnulífið. Miðlar þjóðgarðurinn upplýsingum, tímanlega og ítarlega, um fyrirætlanir sínar og stjórnsýslu.

Breyting á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.

Drög að breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í júní 2019. Breytingin miðar að því að setja nánari ákvæði um útfærslu ákvæða um samninga vegna atvinnutengdrar starfsemi í þjóðgarðinum og leyfisveitingar. Í reglugerðardrögunum er atvinnutengd starfsemi skilgreind, kveðið er á um málsmeðferð, samningsgerð og eftirlit og greinarmunur gerður á milli starfsemi sem nauðsynlegt er að takmarka að umfangi og starfsemi sem ekki er nauðsynlegt að takmarka að umfangi. Ráðuneytið áætlar að reglugerðin verði gefin út vorið 2020.

Með útgáfu reglugerðarinnar skapast betri grundvöllur undir stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs er snýr að atvinnutengdri starfsemi og mun allt verklag innan þjóðgarðsins byggja á ákvæðum hennar.

Spurt og svarað

Hvað er atvinnustefna?

Með því að setja fram atvinnustefnu útskýrir stjórn þjóðgarðsins hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað. Samkvæmt lögum um þjóðgarðinn er óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð. Atvinnustefnan útskýrir m.a. hvers konar atriði verða sett í samninga varðandi réttindi og skyldur aðila.

Stendur til að takmarka atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum?

Nei, þvert á móti. Með því að hafa allar leikreglur skýrar og gegnsæjar vonast stjórn þjóðgarðsins til þess að auðveldara verði að heimila atvinnustarfsemi sem virðir grunnreglur um vernd náttúru og góða starfshætti.

Hverjir munu þurfa að hafa samning við þjóðgarðinn?

Samkvæmt lögunum (sjá gr. 15.a í lögum nr. 60/2007) eru það allir þeir sem stunda atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Þetta er nánar skilgreint á eftirfarandi hátt í drögum að breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð:

Atvinnutengd starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði er þjónusta sem aðrir en þjóðgarðurinn sjálfur bjóða gegn þóknun innan marka þjóðgarðsins. Hefðbundin landnýting innan þjóðgarðs og starfsemi henni tengd telst ekki atvinnutengd starfsemi.

Það er hins vegar ljóst að ákvæðinu verður ekki skyndilega beitt á alla starfsemi sem til greina kemur. Fyrst verður lögð áhersla á starfsemi sem gefa þarf skýra umgjörð vegna náttúruverndar, öryggis gesta eða annarra mikilvægra sjónarmiða. Aðilar sem standa fyrir tímabundnum verkefnum innan þjóðgarðsins, t.d. kvikmyndatöku, munu þurfa að semja um slíkt.

Hvenær tekur atvinnustefnan gildi?

Stefnan tók gildi 24. júní 2019. Innleiðing hennar mun hins vegar taka einhvern tíma og lögð er áhersla á að góður fyrirvari verði á öllum ákvörðunum sem líklegar eru til að snerta atvinnutengda hagsmuni.

Hvar og hvernig birtist atvinnustefnan?

Hluti af atvinnustefnunni birtist í ákvæðum reglugerðar um þjóðgarðinn, t.d. atriði varðandi opinber útboð. Önnur atriði verða í sérstöku atvinnustefnuskjali sem stjórn þjóðgarðsins birtir, líkt og stjórnunar- og verndaráætlun. Þá byggja allar verklagsreglur þjóðgarðsins um samningagerð og útgáfu leyfa á meginreglum atvinnustefnunnar. Hugsanlega rennur atvinnustefnan inn í stjórnunar- og verndaráætlun í framtíðinni.

Hvað með hefðbundna landnýtingu, beit, veiði oþh? Þarf líka að gera samning eða sækja um leyfi vegna hennar?

Nei hefðbundin landnýting í Vatnajökulsþjóðgarði telst ekki atvinnutengd starfsemi og þarf því ekki að gera samning eða sækja um leyfi vegna hennar. Um slíka nýtingu segir m.a. í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð:

„Hefðbundin landnýting svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði, veiði í ám og vötnum og nýting reka, er rétthöfum heimil á þeim svæðum sem afmörkuð eru í viðauka III enda séu uppfyllt ákvæði þeirra laga sem um nýtinguna fjalla. Annars staðar í þjóðgarðinum er slík nýting óheimil.

Landnýting innan þjóðgarðsins skal vera sjálfbær…“

Við útgáfu reglugerðarinnar skapast betri grundvöllur undir stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs er snýr að atvinnutengdri starfsemi og mun allt verklag innan þjóðgarðsins byggja á ákvæðum hennar.

Viltu fá nýjustu fréttir af atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs?

Skráning á póstlista