Leyfisveitingar, umsóknareyðublöð

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við vísindasamfélagið er bæði lögbundið og afar verðmætt. Unnið er að fjölþættum rannsóknum í síkvikri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs ár hvert. Þjóðgarðurinn er einnig fjölsóttur vettvangur fyrir kvikmynda- og auglýsingatökur og notkun fjarstýrðra flygilda (dróna) fer vaxandi.

Rannsóknir, kvikmyndataka, drónanotkun, lending loftfara utan flugvalla og ýmsar framkvæmdir eru leyfisskyldar skv. lögum og reglugerðum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðsverðir veita leyfi til þessara athafna þegar svo ber undir, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

 

VERKLAGSREGLUR OG UMSÓKNIR UM RANNSÓKNIR, KVIKMYNDATÖKUR OG NOTKUN FJARSTÝRÐRA LOFTFARA Í ÞJÓÐGARÐINUM

Kvikmyndagerð, auglýsingagerð og önnur skyld starfsemi:

Öll kvikmyndagerð, auglýsingagerð og önnur slík starfsemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs er háð leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð.

Þeir sem hafa hug á að stunda kvikmyndagerð, auglýsingagerð eða aðra slíka starfsemi innan þjóðgarðsins skulu fylla út umsókn um leyfi og senda hana til þjóðgarðsvarðar þess rekstrarsvæðis þar sem fyrirhugað er að starfsemin fari fram. Sé fyrirhugað að starfsemin fari fram á fleiri en einu rekstrarsvæði ber að sækja um leyfi til þjóðgarðsvarða viðkomandi svæða.

Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.

Verklagsreglur og umsókn um leyfi til kvikmyndagerðar og skyldrar starfsemi:

[Word-skjal]

 

Umsókn um notkun fjarstýrðra loftfara sem ekki eru til notuð til rannsókna eða stórra kvikmynda- eða ljósmyndaverkefna:

Notkun fjarstýrðra loftfara (dróna) innan Vatnajökulsþjóðgarðs er háð leyfi þjóðgarðsyfirvalda. Ástæða þess er þríþætt: 1) Verndun dýrlífs innan þjóðgarðsins; 2) öryggi gesta; og 3) markmið þjóðgarðsins um gæðaupplifun gesta í þjóðgarðinum. Þetta er í samræmi við reglugerð Vatnajökulsþjóðgarðs (608/2008), 9.gr.

Þjóðgarðsverðir geta heimilað notkun fjarstýrðra loftfara sé það tryggt að notkun þeirra fari ekki gegn þeim ástæðum sem nefndar eru hér ofar. Sérstök leyfi eru veitt ef notkunin er í rannsóknarskyni eða ef um er að ræða stórt kvikmynda- eða ljósmyndaverkefni, umsóknareyðublöð fyrir þau verkefni má finna hér ofar.

Umsóknareyðublöð fyrir notkun fjarðstýrða loftfara: [Word-skjal]

Athugið að lögregla og björgunarsveitir þurfa ekki að leita leyfis vegna löggæslu- og björgunarstarfa en ætíð skal láta starfsmenn þjóðgarðsins vita um notkun fjarstýrðra loftfara á þeirra vegum.Rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum:

Allar rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í Vatnajökulsþjóðgarði sem ekki eru á vegum þjóðgarðsyfirvalda eða hluti af framkvæmd samþykktrar verndaráætlunar eru háðar leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð.

Þeir sem hafa hug á að stunda rannsóknir skulu fylla út umsókn um leyfi og senda hana til þjóðgarðsvarðar þess rekstrarsvæðis þar sem fyrirhugað er að starfsemin fari fram. Sé fyrirhugað að starfsemin fari fram á fleiri en einu rekstrarsvæði ber að sækja um leyfi til þjóðgarðsvarða viðkomandi svæða.

Sækja skal um leyfi með minnst 30 daga fyrirvara.

Verklagsreglur og umsókn um leyfi til rannsókna innan þjóðgarðs:

[Word-skjal]