Starfsreglur stjórnarmanna

Starfsreglur stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs (pdf)

Starfsreglur þessar eru settar samkvæmt 5. gr. laga nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð. Í reglunum er með lagatilvísunum átt við ákvæði laganna um þjóðgarðinn nema annað sé tekið fram. Allir stjórnarmenn, sem og áheyrnarfulltrúar, skulu, er þeir taka sæti í stjórninni, fá eintak af starfsreglunum, lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og öðrum þeim reglum sem um störf stjórnar gilda. Skulu starfsreglurnar teknar til umræðu á stjórnarfundi þegar nýr eða nýir stjórnarmenn og áheyrnarfulltrúar sitja sinn fyrsta fund.

1. Sjórnskipun.

1.1. Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun. Umhverfis- og auðlindaráðherra fer með yfirstjórn þjóðgarðsins. Stjórn þjóðgarðsins er skipuð af ráðherra samkvæmt 4. gr. laganna. Formann og varaformann skipar ráðherra án tilnefningar. Stjórnina skipa að öðru leyti formenn allra svæðisráða og einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.

1.2. Áheyrnarfulltrúar, einn tilnefndur af útivistarsamtökum og einn tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum, eiga áheyrnaraðild að fundum stjórnarinnar.

1.3. Formaður kemur fram út á við fyrir hönd stjórnarinnar í málum sem hún fjallar um.

2. Stjórnun.

2.1. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og umsjón með rekstri hans er í höndum stjórnar þjóðgarðsins, sbr. 4. gr. laganna.

2.2. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur þjóðgarðsins, í umboði stjórnarinnar. Um hlutverk framkvæmdastjóra fer samkvæmt 8. gr. c laganna og starfslýsingu sem stjórnin setur um störf hans.

2.3. Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur hver á sínu rekstrarsvæði, í samráði við framkvæmdastjóra og svæðisráð. Um hlutverk þjóðgarðsvarða fer samkvæmt 10. gr. laganna og starfslýsingu sem stjórnin setur hverjum þeirra.

2.4. Stjórninni er heimilt að fela einstaka stjórnarmanni eða stjórnarmönnum tiltekin, afmörkuð verkefni, sem eru umfangsmeiri en svo að hægt sé að sinna þeim eingöngu á stjórnarfundum.

3. Hlutverk stjórnar.

3.1. Hlutverk stjórnar er meðal annars eftirfarandi samkvæmt lögunum og samkvæmt reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 608/2008, með síðari breytingum:

  1. Að móta stefnu í málefnum þjóðgarðsins í samræmi við markmið laganna, sbr. 1. töluliður 1. mgr. 6. gr. Þeirra

  2. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna. Þar á meðal skal stjórnin fara yfir tillögur svæðisráða, hverju á sínu svæði, að stjórnunar- og verndaráætlun og getur gert þær breytingar sem hún telur vera þörf á svo stjórnunar- og verndaráætlunin þjóni hlutverki sínu sem meginstjórntæki þjóðgarðsins, sbr. 5. mgr. 12. gr. laganna.

  3. Að hafa yfirumsjón með og gera, í samráði við svæðisráð og Umhverfisstofnun, tillögu til ráðherra um reglugerð fyrir þjóðgarðinn, sbr. 2. töluliður 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna.

  4. Að samþykkja fjárhagsáætlun um rekstur þjóðgarðsins, að ráðstafa fé til rekstrarsvæða og samþykkja rekstraráætlun hvers svæðis, sbr. 3. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna.

  5. Að gera tillögu til ráðherra um fyrirkomulag gjaldtöku fyrir veitta þjónustu og aðgang að þjóðgarðinum, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna.

  6. Að samræma starfsemi rekstrarsvæða þjóðgarðsins, sbr. 4. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna.

  7. Að ákveða fyrirkomulag rekstrar meginstarfsstöðva og annarra upplýsinga- og þjónustustöðva í þjóðgarðinum og í nágrenni hans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

  7. Að hafa eftirlit með framkvæmd reglna þjóðgarðsins og stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hann, sbr. 5. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna, og, eftir atvikum, að taka ákvarðanir sem stjórninni er falið samkvæmt reglunum og áætluninni.

  8. Að hafa samstarf við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins, sbr. 6. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna.

  9. Að hafa yfirumsjón með gerð atvinnustefnu, þar með talið að móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins og samninga þar um, sbr. 8. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna.

  10. Að gera tillögu til ráðherra um skipun framkvæmdastjóra, sbr. 7. töluliður 1. mgr. 6. gr. laganna.

  11. Að setja framkvæmdastjóra og þjóðgarðsvörðum starfslýsingar með erindisbréfi, sbr. 9. töluliður 1. mgr. 6. gr., 8. gr. c og 10. gr. laganna og 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

  12. Að hafa eftirlit með því að samningar við landeigendur í þjóðgarðinum séu virtir og að halda árlega sameiginlegan fund stjórnar, landeigenda og svæðisráða um málefni þjóðgarðsins, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna.

  13. Að semja við Umhverfisstofnun og, eftir atvikum, aðrar fagstofnanir ríkisins, um samstarf er feli í sér aðstoð og faglega ráðgjöf stofnunarinnar við verkefni stjórnarinnar og svæðisráða, sbr. 11. gr. og 5. mgr. 12. gr. laganna.

  14. Að stuðla að því að almenningi verði veitt fræðsla um náttúruvernd í þjóðgarðinum og þjónusta, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

  15. Að setja sérreglur um tjöldun, meðferð elds o.fl. á grundvelli 2. kafla reglugerðarinnar.

  16. Að beita menn dagsektum samkvæmt 35. gr. reglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. 22. gr. laganna.

  17. Að sinna öðrum þeim verkefnum sem stjórninni eru falin lögum og reglum samkvæmt.

4. Stjórnarfundir.

4.1. Ákvarðanir stjórnar skulu teknar á stjórnarfundum.

4.2. Stjórninni er heimilt að setja sér fastan fundartíma. Fundi skal halda eigi sjaldnar en á 3 mánaða fresti. Ef ekki er ákveðinn fastur fundartími, eða ella ef boða þarf til aukafundar, boðar formaður til stjórnarfunda og skal þá í fundarboði tilgreina fundartíma og fundarstað. Fundartíma og fundarstað skal ákveða með minnst 7 daga fyrirvara, nema allir stjórnarmenn samþykki skemmri fyrirvara í sérstökum tilvikum.

4.3. Hver stjórnarmaður getur óskað þess að fundur verði haldinn um tiltekið málefni, sem vegna mikilvægi þolir ekki bið. Formaður stjórnar metur hvort málefnið sé svo brýnt að ekki megi bíða næsta reglulega stjórnarfundar. Stjórnarmenn og áheyrnarfulltrúar geta með minnst fjögurra daga fyrirvara farið fram á að tiltekið mál verði tekið á dagskrá stjórnarfundar.

4.4. Fundarboð með dagskrá og gögnum skal sent stjórnarmönnum með minnst tveggja daga fyrirvara.

4.5. Áheyrnarfulltrúar skulu fá fundarboð eins og stjórnarmenn. Áheyrnarfulltrúar skulu að jafnaði fá sömu fundargögn send og stjórnarmenn, nema formaður stjórnar ákveði annað í sérstökum tilvikum.

4.6. Heimilt er að halda stjórnarfund með fjarfundarbúnaði og skal sú tilhögun þá hverju sinni tilkynnt í fundarboði.

4.7. Á reglulegum stjórnarfundum gera formenn svæðisráða grein fyrir störfum svæðisráða, hver á sínu svæði.

4.8. Svæðisráð getur óskað eftir því að haldinn verði stjórnarfundur um tiltekið málefni, þar sem stjórnin tekur afstöðu til þess og, eftir atvikum, ákvörðun um það. Taka skal slíkt málefni fyrir á reglulegum fundum stjórnarinnar nema afgreiðsla þess þoli ekki bið.

4.9. Rétt til setu á stjórnarfundum, með málfrelsi, tillögurétti og atkvæðarétti, hafa stjórnarmenn og í forföllum varamenn þeirra. Þá hafa áheyrnarfulltrúar rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti, en ekki atkvæðarétti. Einnig situr framkvæmdastjóri þjóðgarðsins stjórnarfundi. Aðrir, svo sem þjóðgarðsverðir og aðrir starfsmenn, skulu boðaðir á fundi, telji stjórnin þörf á fundarsetu þeirra.

4.10. Stjórnarfundur er ályktunarbær ef meiri hluti stjórnar sækir fundinn, enda hafi allir stjórnarmenn verið boðaðir og/eða fengið tímanlega gögn um málefni sem taka á til afgreiðslu. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns niðurstöðu.

4.11. Formaður stýrir fundum stjórnar. Í forföllum formanns stýrir varaformaður fundunum. Stjórnin velur fundarritara í upphafi hvers stjórnartímabils.

4.12. Hver stjórnarmaður á rétt til þess að gera grein fyrir afstöðu sinni og sjónarmiðum til tiltekins málefnis á dagskrá fundar. Þá hafa áheyrnarfulltrúar, framkvæmdastjóri og aðrir, sem sitja fund vegna tiltekins málefnis, heimild til þess að tjá skoðanir sínar á málefninu. Formanni er þó heimilt að stýra umræðum með því meðal annars að takmarka ræðutíma, reynist brýn þörf á slíku.

4.13. Fundarritari færir fundargerð og skráir helstu atriði úr umræðum um hvern dagskrárlið. Fundargerð skal lesin upp í lok fundar og lögð fyrir stjórnina til samþykktar. Stjórnarmenn hafa heimild til þess að gera athugasemdir við fundargerð og, eftir atvikum, að óska breytinga á texta hennar eða að láta bóka athugasemdir sínar, telji þeir þörf á slíku.

4.14. Fundargerðir skulu birtar á heimasíðu þjóðgarðsins.

4.15. Framkvæmdastjóri varðveitir öll fundargögn og hefur þau aðgengileg fyrir stjórnarmenn, verði eftir þeim kallað.

5. Hæfi við ákvarðanatöku.

5.1. Stjórnarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:

  a) ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila;

  b) ef hann er eða hefur verið maki aðila (í hjúskap, sambúð eða samvist), skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar, eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar;

  c) ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem tilgreindur er í b-lið;

  d) ef málið varðar hann sjálfan verulega, venslamenn hans samkvæmt b-lið, næstu yfirmenn persónulega eða stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir;

  e) ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður, sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

5.2. Það telst ekki vanhæfi stjórnarmanns ef þeir hagsmunir, sem mál snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur stjórnarmanns í meðferð máls er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.

5.3. Stjórnarmaður skal hafa frumkvæði að því að upplýsa stjórnina um mögulegar vanhæfi ástæður, þegar hann verður þeirra var. Stjórnin, nema sá stjórnarmaður sem möguleg vanhæfi ástæða beinist að, tekur ákvörðun um hvort einstaka stjórnarmaður er vanhæfur við meðferð máls.

5.4. Stjórnarmaður sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi þess og skal víkja af fundi þegar það málefni, sem vanhæfi hans lýtur að, er til umræðu og afgreiðslu.

5.5. Sömu reglur og að framan greinir gilda um fundarsetu áheyrnarfulltrúa.

5.6. Bóka skal í fundargerð um mögulegar vanhæfi ástæður og hvernig þær eru afgreiddar.

5.7. Um hæfi stjórnarmanna gilda almennt að öðru leyti reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og þær eru hverju sinni.

6. Fjármál og rekstur.

6.1. Drög að tillögu stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að rekstri komandi fjárlagaárs og að stefnumótun ríkisaðila til þriggja ára skal lögð fyrir og kynnt á stjórnarfundi eigi síðar en í apríl hvert ár. Tillaga stjórnarinnar skal send ráðuneytinu fyrir 15. maí ár hvert.

6.2. Þegar fjárlög hins opinbera hafa verið samþykkt á Alþingi skal lögð fyrir stjórnina ný eða endurskoðuð rekstraráætlun komandi rekstrarárs, fyrir þjóðgarðinn í heild og fyrir hvert rekstrarsvæði, þar sem tekið verður tillit til þeirra fjárheimilda þjóðgarðsins er felast í lögunum. Stjórnin skal staðfesta rekstraráætlunina, með þeim breytingum sem þurfa þykir. Rekstraráætlunin er grunnur að ákvörðun um gestagjöld í reglugerð, sem sett er á grundvelli 1. mgr. 21. gr. laganna.

6.3. Áform svæðisráða, þjóðgarðsvarða eða framkvæmdastjóra um rekstrarþætti og framkvæmdir, sem kunna að fela í sér veruleg fjárútlát umfram ramma fjárlagaheimilda, ber að kynna fyrir fram í stjórn þjóðgarðsins og afla samþykkis fyrir þeim. Veruleg fjárútlát í þessu sambandi teljast framkvæmdir eða rekstrarþættir sem nema útgjöldum að fjárhæð ein

6.4. Stjórnin fylgist með rekstri svæða þjóðgarðsins og heildarrekstri hans. Þjóðgarðsverðir og framkvæmdastjóri skulu minnst tvisvar á ári, í apríl og október, gefa stjórninni yfirlit um reksturinn, með samanburði við rekstraráætlanir. Stjórnin getur auk þess kallað eftir frekari upplýsingum, þyki þeirra þörf.

7. Þagnar- og trúnaðarskylda.

7.1. Stjórnarmenn eru bundnir þagnar- og trúnaðarskyldu í störfum sínum um þau málefni sem trúnaður skal ríkja um. Þagnar- og trúnaðarskylda helst þótt maður víki úr stjórn þjóðgarðsins.

7.2. Áheyrnarfulltrúar eru bundnir þagnar- og trúnaðarskyldu á sama hátt og stjórnarmenn.

8. Gildistaka starfsreglna.

8.1. Starfsreglur stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs skulu afgreiddar á fundi hennar og undirritaðar af stjórnarmönnum. Meirihluta stjórnarmanna þarf til þess að samþykkja reglurnar. Hið sama á við um breytingar sem kunna að verða gerðar á þeim.

8.2. Reglurnar og breytingar á þeim öðlast gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

 

 

Samþykkt á stjórnarfundi þann 19. september 2017

Ármann Höskuldsson, formaður

Guðrún Áslaug Jónsdóttir, varaformaður,

Ruth Magnúsdóttir, ritari

Björn Ingi Jónsson, stjórnarmaður

Ásta Berghildur Ólafsdóttir, stjórnarmaður

Óli Halldórsson, stjórnarmaður

Sigmundur Einarsson, stjórnarmaður