Stjórnskipulag og skipurit

Skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs

Skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs

Skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs í nóvember 2021

Inngangur

Eftirfarandi skjali er ætlað að vera leiðbeinandi vegna stjórnskipulags Vatnajökulsþjóðgarðs á grundvelli laga um Vatnajökulsþjóðgarði nr. 60/2007.

Í 2. grein laganna segir að markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sé að:

  • Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar
  • Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
  • Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
  • Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.

Í gildandi stjórnunar og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð (2. útgáfa 12. júlí 2013) er birt eftirfarandi framtíðarsýn:

„Vatnajökulsþjóðgarður er þjóðargersemi.
Sérstaða og gæði Vatnajökulsþjóðgarðs eru starfsfólki, íbúum og almenningi kunn; hvort tveggja er uppspretta tækifæra og sköpunar – aðdráttarafl og hvati til góðra verka.
Virðing og verndun náttúru, menningar og minja er í hávegum höfð; sjálfbærni er leiðarljósið og í góðri sátt nýtum við og njótum þessara verðmæta.
Traustir innviðir þjóðgarðsins, faglegur metnaður, gott samstarf og skýr viðmið um starfsemi hafa lagt grunn að góðum árangri í starfseminni.
Árangur í starfsemi og stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs byggist jafnframt á traustum rannsóknum, fræðslu og áhrifaríkri miðlun. Þjóðgarðurinn er eftirsóttur staður til rannsókna.
Vatnajökulsþjóðgarður er mikilvæg stoð í atvinnusköpun og hefur leitt til aukinnar hagsældar svæðisins og landsins alls.
Fjölbreytni er aðalsmerki Vatnajökulsþjóðgarðs í náttúru, menningu og þjónustu.“

Til þess að framtíðarsýn Vatnajökulsþjóðgarðs verði að veruleika eru sett þrjú meginmarkmið í starfi þjóðgarðsins.
Þau eru eftirfarandi:

  • Að vernda, viðhalda og þróa. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að tryggja verndun náttúru og menningarminja og viðhald gæða og sérstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs.
  • Að upplifa. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að tryggja að það sé einstök upplifun að heimsækja og dvelja í Vatnajökulsþjóðgarði, sem gestur, sem starfsmaður eða vísindamaður og að heimamenn telji það til aukinna gæða að búa í þjóðgarðinum eða á áhrifasvæði hans.
  • Að skapa. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að ýta undir að gæði og sérstaða þjóðgarðsins sé nýtt til frekari eflingar atvinnu og búsetu á svæðinu, til nýsköpunar í atvinnulífi, til listsköpunar og miðlunar á menningu svæðisins.

Skjalið er nú gefið út í fyrstu útgáfu og skal það vistað í skjalakerfi Vatnajökulsþjóðgarðs auk þess að vera aðgengilegt á innri og ytri vef stofnunarinnar.

Garðabæ, 25. maí 2020

Magnús Guðmundsson,
framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Skipurit og stjórnskipulag - 1.1 útg. 25.05.2020