Fræðslustefna

Áherslur í Fræðslustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs

Eitt af meginhlutverkum Vatnajökulsþjóðgarðs er að miðla þekkingu um hlutverk sitt og starfsemi til samfélagsins sbr. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Markmið þjóðgarðsins er að móta jákvætt og skapandi umhverfi með virkri fræðslu fyrir starfsfólk, gesti og nærsamfélag. Veita skal fræðslu um náttúru, náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar og einnig skal stuðla að rannsóknum til að efla þekkingu á þessum þáttum.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur það ábyrgðarhlutverk að vernda stór svæði í náttúru Íslands og að taka á móti gestum. Fræðsluáætlun Vatnajökulsþjóðgarðs byggir á fræðslustefnu sem þjóðgarðurinn hefur sett sér. Þjóðgarðurinn er ávallt í stöðugu samtali við nærsamfélag, fyrirtæki og gesti og hefur líka lagalegar skyldur sem ríkisstofnun. Ytra starf fræðslu þarf því að tryggja að boðleiðir upplýsinga séu sterkar og að þær nái til margra hópa. Gæði ytra starfs endurspeglast af innra starfi því er ánægt og hæft starfsfólk grunnurinn að farsælli upplýsingamiðlun. Aðferðir skulu vera í stöðugri þróun og starfsfólk þarf að temja sér nýsköpun í starfi og sækja sér endurmenntun. Í nútíma samfélagi er flæði upplýsinga mikið, miðlar margir en hins vegar gæði og trúverðugleiki af skornum skammti. Ábyrgð þjóðgarðsins gagnvart náttúrunni og loftslagsbreytingum er mikil og því er lykilatriði að gæði og fagmennska sé í allri miðlun og að hún sé aðgengileg.

Eins og kemur fram í mannauðsstefnu Vatnajökulsþjóðgarðs liggur krafturinn á bak við þjóðgarðinn ekki eingöngu í einstakri náttúru hans heldur einnig í kröftugu og ánægðu starfsfólki. Leitast er við að hafa í störfum hæft og vel menntað starfsfólk með reynslu og getu til að sinna starfi sínu af fagmennsku. Starfsmönnum skal gert kleift að auka stöðugt við færni sína og þekkingu og þróast þannig í starfi en tryggja um leið vöxt og þroska Vatnajökulsþjóðgarðs.  Einnig er vonast til að með því sé stuðlað að meiri ánægju í starfi og vinnustaðurinn laði til sín gott starfsfólk.

 1. útgáfa 24. október 2019

Fræðslustefna Vatnajökulsþjóðgarðs