Atvinnustefna

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins en hnykkt var á markmiði þess efnis við breytingu á lögum um þjóðgarðinn árið 2016. Frá því þjóðgarðurinn var stofnaður, árið 2007, hefur þurft að bregðast við vaxandi fjölda erinda frá aðilum sem vilja stunda atvinnustarfsemi með aðstöðu eða aðbúnað innan þjóðgarðsins.

Í febrúar og mars 2019 voru haldnir fimm samráðsfundir um atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs, einn á hverju rekstrarsvæði, auk höfuðborgarsvæðisins. Að auki var boðið upp á könnun á netinu þar sem leitað var eftir sjónarmiðum um sömu efni og tekin voru til umræðu á samráðsfundum. Miklar upplýsingar söfnuðust um viðhorf þátttakenda til ýmissa spurninga sem beint eða óbeint snertu atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum

Sú atvinnustefna sem hér er sett fram lýsir afstöðu þjóðgarðsins til tiltekinna grundvallaratriða sem varða samstarf við atvinnulífið en auk hennar þarf reglugerð að innihalda ákvæði sem varða málsmeðferð. Einnig er mikilvægur grunnur í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins því þar er skilgreint hvernig þjónustu og aðgengi í þjóðgarðinum skuli háttað, þar á meðal hámarksumfang starfsemi á hverjum stað, ef ástæða er til.

Í atvinnustefnunni eru dregnar upp meginlínur en ýmislegt þarfnast nánari útfærslu og samráðs við hagaðila. Í þeim efnum þarf að tryggja sanngjarna niðurstöðu fyrir þá sem þegar veita þjónustu innan þjóðgarðsins.

 

Nánar um atvinnustefnu

 

Atvinnustefna var samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs 24. júní 2019 - 1.0