Hagnýt atriði og kjaramál

Sumarstarfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs fá laun samkvæmt stofnanasamningi Starfsgreinasambands Íslands við Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarð. Frídagar eru að meðaltali 5,3 mánuði. Frítöku er misjafnlega háttað milli svæða en fyrirkomulagið liggur fyrir á vaktaplani í upphafi sumars.

Í upphafi sumars fá nýir starfsmenn kynningu á Vatnajökulsþjóðgarði og starfsstöð þeirri sem þeir eru ráðnir á. Þeir eru þó hvattir til að afla sér upplýsinga sjálfir áður, t.d. hér á vefnum.

Starfsmenn þurfa sjálfir að sjá sér fyrir mat, en greiðsla dagpeninga er hluti af kjörum þeirra.

Starfsmenn þurfa að hafa með sér sængur, kodda og rúmföt á starfsstöðvar þar sem dvalið er fjarri heimili.

Vatnajökulsþjóðgarður greiðir fyrir ferðir í upphafi starfstíma og við lok hans. Jafnframt er greitt fyrir ferðir í og úr fríi eftir því sem segir í stofnanasamningi.

Vatnajökulsþjóðgarður leggur starfsfólki til viðeigandi einkennisfatnað og hlífðarfatnað. Starfsmönnum eru ekki lagðir til vinnuskór, en fyrir 11 vikna starf fá þeir endurgreiddar allt að 13.500 kr. vegna skókaupa framvísi þeir reikningi. Greitt er hlutfallslega fyrir styttra vinnutímabil.

Þess er krafist að landverðir séu með gild fyrstu hjálpar réttindi, boðið er upp á slíkt námskeið að vori.