Samráð um atvinnustefnu

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins en sérstakt ákvæði þess efnis kom inn í lög um þjóðgarðinn við breytingu árið 2016.  

Stjórn þjóðgarðsins vinnur nú að mótun atvinnustefnu og vill tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila við mótun hennar, samhliða vernd þjóðgarðsins.  

Lögð er áhersla á að eiga gott samstarf við alla þá sem nýta þjóðgarðinn beint eða óbeint til atvinnusköpunar. Þeim og öðrum sem áhuga hafa var boðið til samráðsfunda þar sem efnisatriði atvinnustefnunnar voru rædd.  

Fundir voru haldnir á öllum rekstrarsvæðum og í Reykjavík í febrúar og byrjun mars ásamt vefkönnun sem var opin til 12. mars.

Spurt og svarað:

Hvað er atvinnustefna?

Með því að setja fram atvinnustefnu útskýrir stjórn þjóðgarðsins hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað. Samkvæmt lögum um þjóðgarðinn er óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð. Atvinnustefnan útskýrir m.a. hvers konar atriði verða sett í samninga varðandi réttindi og skyldur aðila..

Stendur til að takmarka atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum?

Nei, þvert á móti. Með því að hafa allar leikreglur skýrar og gegnsæjar vonast stjórn þjóðgarðsins til þess að auðveldara verði að heimila atvinnustarfsemi sem virðir grunnreglur um vernd náttúru og góða starfshætti.

Hverjir munu þurfa að hafa samning við þjóðgarðinn?

Samkvæmt lögunum (sjá gr. 15.a í lögum nr. 60/2007) eru það allir þeir sem stunda atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Það er hins vegar ljóst að ákvæðinu verður ekki skyndilega beitt á alla starfsemi sem til greina kemur. Fyrst verður lögð áhersla á starfsemi sem gefa þarf skýra umgjörð vegna náttúruverndar, öryggis gesta eða annarra mikilvægra sjónarmiða. Aðilar sem standa fyrir tímabundnum verkefnum innan þjóðgarðsins, t.d. kvikmyndatöku, munu þurfa að semja um slíkt.

Hvenær tekur atvinnustefnan gildi?

Stefnt er að því að hún taki gildi á vorið 2019.

Hvar og hvernig birtist atvinnustefnan?

Hluti af atvinnustefnunni birtist í ákvæðum reglugerðar um þjóðgarðinn, t.d. atriði varðandi opinber útboð. Önnur atriði verða í sérstöku atvinnustefnuskjali sem stjórn þjóðgarðsins birtir, líkt og stjórnunar- og verndaráætlun. Hugsanlega rennur atvinnustefnan inn í stjórnunar- og verndaráætlun í framtíðinni.

Hvað ef ég kemst ekki á neinn þessara funda?

Þá er um að gera að svara vefkönnuninni sem verður opnuð hér á þessari síðu þann 21. febrúar. Þar eru spurningar um sömu viðfangsefni og tekin verða fyrir á fundunum. Þar sem fundirnir byggja að verulegu leyti á samtali þátttakenda verður ekki streymi frá þeim á vefnum.

Fyrir hverja er samráðið?

Atvinnustarfsemi sem tengist þjóðgarðinum er mjög margvísleg, allt frá hefðbundnum búskap til ferðaskipuleggjenda. Hagsmunirnir eru að sama skapi ólíkir. Stjórn þjóðgarðsins hefur áhuga á öllum gagnlegum ábendingum og öllum sjónarmiðum. Bæði fundirnir og vefkönnunin bjóða upp á viðfangsefni sem hægt er að velja í samræmi við starfsgrein hvers þátttakanda.

Atvinnustefnan varðar ekki bara þá sem hafa starfsemi innan þjóðgarðsmarka heldur líka þá sem nýt þjóðgarðinn óbeint í sinni starfsemi.

Er könnunin nafnlaus?

Í könnuninni er mælst til þess að nafn og netfang sé gefið upp til þess að hægt sé að fylgja eftir svörum ef ástæða er til, líkt og við getum spjallað augliti til auglitis á fundunum. Svör þátttakenda verða hins vegar aldrei birt opinberlega, aðeins almenn samantekt án rekjanlegra upplýsinga.

Má ég taka þátt bæði í vefkönnuninni og fundunum?

Já, það er ekkert því til fyrirstöðu ef það hjálpar til við að koma að ábendingum sem annars hefðu ekki borist.

Get ég komið sjónarmiðum að eftir að þessu samráði lýkur?

Það er alltaf velkomið að hafa samband við starfsfólk þjóðgarðsins sem mun koma ábendingum um atvinnustefnuna til skila.

Hvað gerist næst?

Eftir að samráðinu lýkur verða drög að atvinnustefnu lögð fram til rýni og þá mun öllum gefast annað tækifæri til að bregðast við.