Vetrarakstur

Almennt um vetrarakstur

Umferð vélknúinna ökutækja er aðeins heimil á vegum. Akstur er þó heimill utan vega þar sem jörð er snævi þakin og frosin skv. nánari ákvæðum um vetrarakstur hér fyrir neðan, ákvæðum reglugerðar og ákvörðunum þjóðgarðsvarða.

Heimilt er að aka á vélknúnum ökutækjum og vélsleðum utan vega innan þjóðgarðsins svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin og þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á vettvangi. Þetta gildir þó ekki í Jökulsárgljúfrum, í Skaftafelli, Hoffelli og í Öskju, sbr. afmörkun þessara svæða í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008, sbr. reglugerð nr. 755/2009.

Gæta þarf að skilmálum sem kunna að gilda um vetrarakstur á víðernum og svæðum með sérstökum verndarákvæðum.

Vetrarakstur er óheimill:

 • í og við gervigígaþyrpingar
 • á svæðinu norðan Kamba (milli Kamba og Skaftár)
 • innan þjóðgarðsmarka í Skaftafelli (þ.m.t. í Kjós og Skaftafellsfjöllum)
 • á og við jarðhitasvæði í Snapadal í Vonarskarði
 • innan þjóðgarðsmarka í Jökulsárgljúfrum
 • í Öskju á svæði sem afmarkað er í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008 (sjá einnig hér)
 • Í Lakagígum skal vetrarakstur vera sem næst vegstæði. Óheimilt er að aka í hlíðum gíganna.

Leiðbeiningar um akstursleiðir af jökli:

 • Dyngjujökull: Er farið er af Dyngjujökli  á veturna í átt að skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur í Kverkfjöllum er mælst til þess að ferðamenn fylgi áreyrum Jökulsár á Fjöllum að GPS hniti:
  N 64° 75.183' - W 016° 64.278' (við borholu). 

Akstursleiðir að og á jökli

 Samkvæmt ákvæðum reglugerðar er heimilt er að fara um Vatnajökul á vélknúnum ökutækjum nema á leiðum sem merktar hafa verið til annarra nota. Þó gilda sérstakar takmarkanir um akstur vélknúinna ökutækja á Hvannadalshnjúk, Öræfajökli og í Kverkfjöllum.

Þar sem jaðrar jöklanna breytast hratt og yfirborð þeirra er breytilegt frá ári til árs er ekki hægt að gefa upp nákvæma staðsetningu aðkomuleiða á jökulinn eða hversu lengi þær eru færar fram eftir sumri. Ferðamenn leiti sér upplýsinga hjá landvörðum, Jöklarannsóknafélaginu og/eða Landsbjörgu. Óvönum er ekki ráðlagt að aka á jökulinn án fylgdar.

Aðeins er gert ráð fyrir akstri upp á jökul að sumarlagi á eftirtöldum stöðum eftir leiðum sem kunna að vera breytilegar eftir aðstæðum:

 • Frá Svarthöfða upp á Köldukvíslarjökul
 • Í Jökulheimum upp á Tungnaárjökul
 • Frá Gæsavötnum á Dyngjujökul
 • Vestan Kistufells af Gæsavatnaleið upp á Dyngjujökul
 • Frá Háöldu innan Snæfells upp á Brúarjökul
 • Frá Jöklaseli upp á Skálafellsjökul
 • Á Breiðamerkursandi upp á Breiðamerkurjökul að Mávabyggðarönd austan við Breiðárlón