Spurt og svarað

Spurt og svarað um Vatnajökulsþjóðgarð

 

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Hvar eru starfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs?

Starfsstöðvar þjóðgarðsins, skrifstofur, gestastofur og landvörslustöðvar eru dreifðar um þjóðgarðinn og aðalskrifstofa er staðsett í Garðabæ.

Hver er vinsælasti staðurinn innan Vatnajökulsþjóðgarðs?

Flestir gestir heimsækja náttúruperlunar Jökulsárlón á Breiðamerkursandi og Skaftafell.

Hér má sjá þróun gestafjölda við Jökulsárlón, í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum 2014-2019:

Hver eru markmið Vatnajökulsþjóðgarðs?

1. Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.

2. Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.

3. Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.

4. Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.

Sjá nánar, lög um Vatnajökulsþjóðgarð

Hvað starfa margir hjá Vatnajökulsþjóðgarði og hvar?

Á árinu 2020 var fjöldi starfsmanna á launaskrá Vatnajökulsþjóðgarðs 112, þar af 39 í starfi allt árið/heilsársstörfum og 73 í sumarstörfum. Fjöldi ársverka voru 52,73, sumarstarfsmenn skiluðu um 14 ársverkum. Langflest störfin eru á starfstöðvum þjóðgarðsins víðs vegar um landið en þrjú og hálft heilsársstarf er á höfuðborgarsvæðinu. 

 

Hvað er Vatnajökulsþjóðgarður stór?

Vatnajökulsþjóðgarður er 14.698 km². (1.1.2021)  Í upphafi, árið 2008 var þjóðgarðurinn 10.857 km² en hefur stækkað með viðbótum síðustu ár:

2009 12.836 km2 reglugerð nr. 755/2009 - Öskjusvæðið

2011 13.269 km2 reglugerð nr. 734/2011 - Langisjór

2013 13.950 km2 reglugerð nr. 643/2013 - Kverkfjöll

2014 13.952 km2 reglugerð nr. 457/2014 - Meiðavallaskógur

2017 14.136 km2 reglugerð nr. 730/2017 - Breiðamerkursandur

2019 14.696 km2 reglugerð nr. 663/2019 - Ódáðahraun

2019 14.698 km2 reglugerð nr. 739/2019 - Ásbyrgi

 

Hvað er stjórnunar- og verndaráætlun?

Stjórnunar- og verndaráætlun er aðalstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar. 

Í áætluninni er sett fram stefna um Vatnajökulsþjóðgarð, náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Stefnan var mótuð í samráði við fjölmarga hagsmunaaðila. Hún snertir á ótal atriðum sem snúa að verndun og nýtingu gæða þjóðgarðsins. Einnig gerir stefnan því skil hvernig nýta megi sem best tækifærin sem verða til vegna stofnunar þjóðgarðsins, styrkja það sem fyrir er en jafnframt skapa ný. Stjórnunar- og verndaráætlun er samkvæmt því ætlað að vera stefnumótandi áætlun sem stjórnendur Vatnajökulsþjóðgarðs styðjast við þegar ákvarðanir um stjórnun og skipulag þjóðgarðsins eru teknar.

Opin birting áætlunarinnar á vef þjóðgarðsins gefur öllum færi á að kynna sér hana og má nálgast hana á vefnum hér:

 

Atvinnustefna

Hvað er atvinnustefna?

Með því að setja fram atvinnustefnu útskýrir stjórn þjóðgarðsins hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað. Samkvæmt lögum um þjóðgarðinn er óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð. Atvinnustefnan útskýrir m.a. hvers konar atriði verða sett í samninga varðandi réttindi og skyldur aðila.

Stendur til að takmarka atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum?

Nei, þvert á móti. Með því að hafa allar leikreglur skýrar og gegnsæjar vonast stjórn þjóðgarðsins til þess að auðveldara verði að heimila atvinnustarfsemi sem virðir grunnreglur um vernd náttúru og góða starfshætti.

 

Úthlutun leyfa til íshellaferða veturinn 2020-2021

Er þetta kvótakerfi?

Nei, þetta er ekki kvóti, heldur sjálfbær nýting á takmörkuðum gæðum þjóðgarðsins - Fyrirtæki hafa kallað eftir fjöldatakmörkunum á ákveðnum svæðum eins og við vinsæla íshella og jökla. Munurinn á orðunum er sá að kvóti gengur kaupum og sölum en samningar við fyrirtækin má ekki endurselja. Það er því EKKI verið að koma á kvótakerfi innan þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn vill takmarka fjölda að gæðum þjóðgarðsins í samtali við atvinnustarfsemi til að tryggja náttúruvernd, gæði upplifunar ferðafólks og síðast en ekki síst öryggi.

Er hægt að framselja úthlutuð sæti í íshellaferðir?

Nei, Samningshafa er óheimilt að framselja samninginn og/eða réttindi og skyldur á grundvelli hans, beint eða óbeint til þriðja aðila, nema að fengnu skriflegu samþykki Vatnajökulsþjóðgarðs

Þarf ég leyfi til að fara inn í þjóðgarðinn í einkaerindum?

Nei. Almenningur þarf ekki sérstakt leyfi til að heimsækja þjóðgarðinn í einkaerindum.

Hvernig var samráðið fyrir þessa úthlutun?

Auk opins samráðsferli fyrir gerð atvinnustefnu þjóðgarðsins, fór fram samráð fyrir úthlutun sæta í íshellaferðir veturinn 2020/2021. Send var út könnun til rekstraraðila og leiðsögumanna á svæðinu. Niðurstöður könnunarinnar voru svo kynntar á samráðsfundi sem haldinn var í Nýheimum á Höfn í júní 2020.

 

Heimsminjaskrá UNESCO

Hvað er heimsminjaskrá?

Heimsminjaskrá er skrá yfir ákveðna staði á jörðinni sem hafa ótvírætt verndargildi. Þetta geta verið menningarminjar eða náttúra sem skiptir máli fyrir mannkynið allt og tengjast oft sögu eða sjálfsmynd þjóða. Heimsminjaskrá er hluti af Heimsminjasamning Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna  eða UNESCO frá 1972. Ísland fullgilti heimsminjasamninginn í desember 1995. Ráðuneyti mennta- og menningarmála og umhverfis- og auðlindamála bera ábyrgð á samningnum hér á landi og hafa frá upphafi unnið náið saman að innleiðingu hans.

Hvað eru heimsminjar?

Heimsminjar eru ýmist tengdar menningarlegum þáttum eða náttúrufari og hafa einstakt gildi fyrir heiminn allan.  Á heimsvísu hafa náttúru- og menningarminjar verið í mikilli hættu vegna heimstyrjalda, þéttbýlismyndunar, fátæktar, mengunar og náttúruhamfara. Einnig hafa nýir áhættuþættir bæst við, svo sem loftslagsbreytingar og aukin ásókn ferðamanna, en helsta ógnin sem steðjar að menningarminjum heimsins er þó vanræksla.

Hvenær komst Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá og afhverju?

Til að komast á heimsminjaskrá UNESCO þarf staður eða fyrirbæri að hafa það sem kallað er einstakt gildi á heimsvísu (Outstanding Universal Value). Þetta einstaka gildi getur verið tengt menningarlegum þáttum eða náttúrufari. Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskránna á fundi heimsminjanefndarinnar í Bakú í Aserbaídsjan hinn 5. júlí 2019 á grundvelli einstakrar náttúru. Fyrir átti Ísland tvo staði á heimsminjaskrá, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).

Hverju breytir það fyrir þjóðgarðinn að vera kominn á heimsminjaskrá?

Skráning á heimsminjaskrá breytir starfsemi þjóðgarðsins í raun óverulega þar sem hún byggir á gildandi Stjórnunar- og verndaráætlun garðsins. Markmið þjóðgarða og heimsminjastaða er að vernda menningar- og náttúruminjar sem er nú þegar markmið þjóðgarðsins. Munurinn er sá að fyrir heimsminjastaði er verndargildið og eignarhaldið fyrir mannkynið allt.

Skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá staðfestir mikilvægi náttúru garðsins. Líta má á skráninguna sem æðstu gæðavottun sem völ er á. Menningarmálastofnun SÞ (UNESCO) hvetur lönd til að taka þátt í að ská og vernda minjar heimsins með markvissum verndunar- og vöktunaráætlunum sem íbúar í nærumhverfi taki þátt í og hefur útbúið leiðbeiningar í því sambandi. Veitt er aðstoð sé svæðið í mikilli hættu t.d. vegna átroðnings ferðamanna.

Skráninging Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá hindrar ekki útivist eða önnur umsvif í þjóðgarðinum umfram þær takmarkanir sem þegar eru til staðar í Stjórnunar- og verndaráætlun hans. Helstu breytingar sem gestir garðsins kunna að taka eftir varða kynningar- og fræðsluefni þar sem fléttað verður inn einkennismerki og gildum heimsminjastaða. Umfram allt er það markmið heimsminjaskráningar að vel sé hugsað um viðkomandi svæðið til framtíðar.

 

Hörfandi jöklar

Hvaða verkefni er Hörfandi jöklar?

Verkefnið er samvinnuverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans. Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni.

Fræðsluvefurinn hér á síðu þjóðgarðsins er hluti af verkefninu

Hvað eru loftslagsbreytingar?

Sjá svar hér á fræðsluvefnum Hörfandi jöklar

Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar á jökla?

Sjá svar hér á fræðsluvefnum Hörfandi jöklar

 

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn í gegnum formið hér fyrir neðan:

 

Senda inn fyrirspurn

Safnreitaskil
.