Áhættumat íshella

Íshellar geta verið mjög fallegir og upplifun þeirra sem þangað fara ólík því sem er víðast annarstaðar. Það er því eðlilegt að ferðamenn sæki í hellana. Flestir íshellar eru inn af útfalli vatnsfarvega á jökulbotni og myndast vegna rennslis vatns á leysingartíma. Á nokkrum stöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru til íshellar sem myndaðir eru vegna jarðhita. Íshellar af báðum gerðum eru í eðli sínu fremur óstöðugir og síbreytilegir. Hætta getur verið á hruni úr ísþakinu, vatnsrennsli eftir þeim getur einnig valdið hættu eða gert þá með öllu ófæra. Þá geta brunnar og sprungur ofan þeirra fyllst af snjó og krapa og náð síðan skyndilegri framrás inn í hellinn með því sem helst líkist krapahlaupi. Í jarðhitahellum getur orðið súrefnisskortur og stundum eitraðar lofttegundir. Öll þessi atriði skapa hættu og geta valdið slysum.

Í ljósi þess að skipulögðum ferðum í íshella í jaðri Breiðamerkurjökuls og víðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs hefur fjölgað mjög á síðustu misserum telja stjórnendur þjóðgarðsins, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar brýnt að settar verði reglur um skipulagðar íshellaferðir sem ferðaþjónustuaðilum verði gert skylt að fylgja. Reglunum væri ætlað að lágmarka áhættu gesta í íshellum.

Hér fyrir neðan eru drög að verklagsreglum um áhættumat íshella sem unnið var veturinn 2017-2018.  Athygli er vakin á því að samkvæmt lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018 ber hverjum þeim sem hyggst framkvæma skipulagðar ferðir á íslensku yfirráðasvæði að hafa öryggisáætlanir fyrir sínar ferðir. Sjá nánar á vef Ferðamálastofu.

Íshellar í Vatnajökulsþjóðgarði. Aðferðir við mat á áhættu [PDF 1 MB]

Íshellar - gátlisti [XLSX 15 KB]