Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar á Snæfellssvæðinu. Þær eru við allra hæfi, bæði styttri og lengri göngur. Gönguleiðirnar eru flokkaðar og merktar eftir erfiðleikastuðli.Hægt að kaupa gönguleiðakort fyrir Snæfellsöræfi í öllum gestastofum Vatnajökulsþjóðgarðs og einnig hægt að nálgast hérna á vefnum.
S1. Snæfellsskáli-Laugarfell (28-30 km) rautt
Gengið er sem leið liggur suður frá Snæfellsskála um Þjófadali og hestagötum fylgt að Hálskofa. Þaðan er reiðleiðinni fylgt áfram um Snæfellsnes og Hafursárufs, yfir Hafursá og áfram norður á bóginn uns komið er að heitu lauginni og Laugarkofa, neðan Laugarfells. Þetta er góð dagleið.
S2. Snæfell-Þjófadalir (8-9km) rautt
Lagt er upp frá Snæfellsskála eða ekið suður að Langahnjúk og gengið upp með Þjófadalsánni um Þjófadali milli Snæfells og Þjófahnjúka. Gengið er austur dalinn og út á bakkana, þar er mjög gott útsýni yfir Eyjabakka og Þóriseyjar.
S3. Snæfellshringurinn (28-30km) rautt
Oftast er lagt upp frá Snæfellsskála og gengið um Þjófadali milli Þjófahnjúka og Snæfells. Þaðan er gott útsýni yfir Eyjabakka. Úr Þjófadölum er gengið út með Snæfellshálsi,ofan við Þjófagilsá, að Hálskofa. Er gengið sem leið liggur neðst í hlíðum Snæfells út undir Hafursá. Þaðan er stutt niður að Eyjabakkavaði, þar sem margir enda gönguna (18-19km). Ef stefnan er tekin á hringinn, þá er haldið upp með Hafursá um Vatnsdal og áfram inn með kollinum sem kallaður er Tíutíu (1010m). Þaðan liggur leiðin samhliða veginum að Snæfellsskála. Þetta er góð dagleið.
S4. Snæfell (12-14km) rautt
Nokkrar uppgönguleiðir eru færar á Snæfell. Núorðið er algengt að fara upp á Snæfell að vestanverðu, nokkru innan við Snæfellsskála. Gönguleiðin er stikuð að hluta eða þar til jöklinum er náð. Útsýni er afar tilkomumikið af Snæfelli og nær til allra átta, enda Snæfellið hæsta fjall landsins utan jökla (1833m). *Göngutími er 6-9 klst, allt eftir aðstæðum á jöklinum. Ráðlegt er að hafa mannbrodda meðferðis.
S5. Snæfellsskáli – Lónsöræfi (44-46km) svart
Gönguleið sem farin er á 3-5 dögum. Í fyrsta áfanga er gengið frá Bjálfafelli yfir í Eyjabakkajökul í Geldingafell (20km). Vaða þarf nokkrar jökulsprænur á leiðinni. Úr Geldingafelli er gengið í skálann við Kollumúlavatn (15km) Þaðan er gengið um Víðidal, langan og grösugan dal í Stafafellsfjöllum, norðan Kollumúla og áfram með brúnum Tröllakróka í Múlaskála. Þaðan er örstutt yfir í Illakamb, þar sem flestir kjós að láta sækja sig. ATH. Kortið nær aðeins yfir hluta af leiðinni.
S6.Glúmsstaðasel – Eyjabakkafoss (19km) rautt
Jeppavegur er inn að Glúmsstaðaseli í Norðurdal Fljótsdals. Gengið er upp með Jökulsá austan megin, fram hjá Ófærufossi, Gjögurfossum, Faxa og Kirkjufossi, sem leið liggur að Hrakstrandarkofa og að Eyjabakkafossi.
S7. Eyjabakkafoss – Geldingafellsskáli (16km) svart
Gengið er meðfram Eyjabakkafossi og inn Eyjabakka að Eyjakofa og áfram upp með Ytri Bergkvísl uns sveigt er til suðurs að Geldingafellsskála.
S8. Kleif – Eyjabakkafoss (20km) rautt
Margir fossar voru í Jökulsá á Fljótsdal fyrir virkjun. Skemmtileg gönguleið er upp með henni frá Kleif í Norðurdal þó svo að kraftur fossana hafi dvínað. Gengið er um Kleifarskóg, fram hjá Gjögurfossum og Faxa og áfram upp að Kirkjufossi sem er hæsti foss í ánni. Nokkru ofar er Hraukstrandarfoss og svo Eyjabakkafoss. Þar skammt fyrir ofan er vaðið yfir Jökulsá í Fljótsdal.
S9. Aðalból – Dragmót (13-14km) rautt
Gengið er sem leið liggur upp með ánni Hrafnkelu, fram hjá Faxagili að Tungusporði og áfram reiðgöturnar meðfram Glúmsstaðaá og upp Glúmsstaðadal að Kárahnjúkavegi í Dragmótum Fornt sel var í Glúmsstaðadal og þar er volg laug sem hægt er að baða sig í. ATH. Kortið nær aðeins yfir hluta af leiðinni.
S10. Fljótsdalur – Lónsöræfi (50km) svart
Liggur upp úr Þorgerðarstaðardal suður að Sauðárvatni. Frá Sauðárvatni liggur leiðin suður um Leiðaröxl og Víðidalsdrög, niður að Norðlingavaði á Víðidalsá og áfram vestan Víðidals suðurá Kollumúla og niður Leiðartungur að Norðlingavaði á Jökulsá í Lóni. Fyrr á öldum fóru Norðlendingar þessa leið til sjóróðra í A-Skaftafellssýslu. ATH. Kortið nær aðeins yfir hluta af leiðinni.