Um Snæfellsöræfi

Snæfellsöræfi er háslétta nokkuð flöt í 600-900 m hæð umhverfis hina fornu megineldstöð Snæfell og móbergshnjúka sem umkringja fjallið. Hásléttan er mótuð af skriðjöklum sem skrapað hafa hana í aldanna rás og hér er einn fárra staða á Íslandi þar sem er samfellt gróðurlendi frá fjöru til jökuls. Úrkoma er víða lítil á svæðinu enda er það í regnskugga Vatnajökuls. Mest rignir austast en minnkar eftir því sem vestar dregur og óvíða minna á landinu en á Brúaröræfum.

Hér hafa lengstum verið aðal sumarhagar og burðarsvæði hreindýra á Austurlandi og tórðu þau hér á sama tíma og þau dóu út á öðrum stöðum á fyrri hluta 20. aldar.. Kringilsárrani var friðlýstur 1975 og er eina lögformlega friðland hreindýra Af fuglum er heiðagæs mest áberandi og á Eyjabökkum var til skamms tíma stærsti fellihópur tegundarinnar í heiminum. Unnið er að því að svæðið njóti alþjóðlegrar friðlýsingar RAMSAR sáttmálans.

Snæfellsöræfin skiptast í Vesturöræfi, Snæfell, Undir fellum og Múla.

Vesturöræfi

Hér notað yfir svæðið vestan Grjótárhnjúks, Miðhnjúks, Sauðahnjúka og Fitjahnúks að Hálslóni.

Gróðursæl háslétta í 6-700 m hæð inn undir Jökulkvísl en land þar sunnan við er lítt gróið enda hljóp jökullinn yfir hluta þess 1964. Land innan Jökulkvíslar tilheyrir Kringilsárranafriðlandi. Mishæðalítil og vel gróin nema á hæstu öldum og melum. Víða eru víðáttu- og gróskumikil votlendi. Dæmi um það er t.d. Ljósalykkjuflói, foráttublautur með tjarnastör sem ríkjandi tegund og Fit innan Sauðár þar sem meira ber á hengi- og mýrastör. Tjarnir kragaðar tjarnastör og klófífu einkenna víða votlendið og kallast slík gróðurlendi flár. Tjarnirnar eru leifar freðmýrarústa eða dysja sem fáséðar eru nú á Snæfellsöræfum en einna myndarlegastar innarlega á Sauðárfit utan við Töðuhrauka stutt norðan Jökulkvíslar. Í tjörnunum má finna ýmis krabbadýr og þar á meðal skötuorm. Álftir og heiðagæsir eru þær fuglategundir sem mest ber á. Hér hafa löngum verið aðal sumarbeitilönd hreindýra sem tilheyra svokallaðri Snæfellsshjörð. Síðustu árin hafa þau þó gengið mest á innri hluta Fljótsdalsheiðar.

Snæfell

Snæfell er 1833 m hátt og þar með hæst fjalla hér á landi utan jökla. Frá fjallinu vestur að hnjúkum er háslétta í um 800 m hæð sem kallast Sandar. Fjallið er megineldstöð sem hlóðst upp á síðustu 400 þúsund árum. Deilt er um hvenær þar gaus síðast og hvort fjallið teljist virk eldstöð eða útkulnuð. Líparít setur víða svip sinn á fjallið. Sumir telja að Snæfell hafi staðið upp úr ísaldarjöklinum á síðustu skeiðum ísaldar þegar Þjófahnjúkar og önnur móbergsfjöll kringum það mynduðust í gosum undir jökli. Á Söndunum við fjallið má oft sjá stóra hreindýrahópa, einkum seinni hluta sumars. Fjallaplöntur teygja sig upp hlíðar Snæfells, jöklasóley víða algeng en fjallavorblómið smáa með sín gulu blóm einkum á fjallatoppum. Víða spretta lindir úr hlíðum hnjúkanna og skarta fagurgrænum dýjamosa sem sker sig úr svörtum gróðurlausum hlíðunum. Skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs kenndur við fjallið stendur vestan undir því. Stikuð gönguleið er á fjallið og ráðlagt er að hafa meðferðis mannbrodda.

 

Undir Fellum

Landið fyrir austan Snæfell að austustu kvíslum Jökulsár í Fljótsdal og út að Laugará verður hér nefnt þessu nafni þó hinn eiginlegi afréttur sé nokkuð stærri. Landið austan Snæfells er í dag kallað Eyjabakkar þó hinir eiginlegu Eyjabakkar séu aðeins austan ár utan við Bergkvíslarnes. Utan við Snæfell og Eyjabakka er síðan sléttlendi með votlendi, ufsum og ásum. Kvíslar Jökulsár mynda víðáttumikla flæðisléttu með fjölmörgum kvíslum og eyjum sem kallast Þóriseyjar. Afar gróskumikill votlendisgróður er í eyjunum sem hreindýr en þó einkum heiðagæsir og álftir kunna vel að meta. Á Eyjabakkasvæðinu sem er í 650-680 m hæð hafa fundist 133 tegundir háplantna. Innan til á svæðinu fella stórir hópar heiðagæsa flugfjaðrir og eru í sárum í júlí. Þar var til skamms tíma stærsti fellihópur heiðagæsa í heiminum en hefur fækkað hin seinni ár. Oft er hér mun snjóþyngra en á Vesturöræfum og því sjást hreindýr hér fyrst og fremst á haustin.

 

Múli

Svæðið á milli austustu kvísla Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár. Þjóðgarðsmörk liggja innan við uppistöðulón stækkaðs Folavatns og því er hér aðeins um að ræða innsta hluti hins eiginlega Múlaafréttar. Hæðótt háslétta nokkuð gróin en mestur er gróðurinn þó inn með Kelduá og Jökulsá í Fljótsdal. Innst á Múla eru móbergshnjúkarnir Geldingafell en norðan í vestasta hnjúknum er skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Norðaustan fellanna liggur Vatnadæld en þar eru frá austri Fremsta-, Mið- og Innstavatn og Kelduárvatn en á milli þeirra síðast nefndu liggja mörk Fljótsdals og Lóns. Kelduá á upptök í samnefndu vatni en neðan við Geldingafellsskála sameinast Blanda henni og sveigir hún þar út Múlann.