Um Kringilsárrana

Kringilsárrani heitir innsti hluti Brúaröræfa sem afmarkast af Brúarjökli, Hálslóni og Kringilsá og myndar þríhyrnda hásléttu í 625-700 m hæð yfir sjávarmáli. Brúarjökull hefur mótað Ranann og skilið eftir sig jökulgarða þvert á skriðstefnu sína. Mest áberandi er jökulgarðurinn frá 1890 sem kallast Töðuhraukar en stendur ekki undir nafni eftir að grasbítum fjölgaði á svæðinu.

Gróður er víða nokkuð fjölbreyttur í Kringilsárrana en hefur mótast af hlaupum og hopi Brúarjökuls. All víða er votlendi og tjarnir sem koma sér vel fyrir aukinn fjölda heiðagæsa í Rananum síðustu áratugina. Árið 1939 fann Helgi Valtýsson um 100 hreindýr í Rananum og taldi að það væru einu eftirlifandi dýrin í landinu. Síðustu áratugina hafa yfirleitt verið 2-300 hreindýr í Rananum en flest um 600 árið 1981. Stór hluti þeirra hafa verið fullorðnir tarfar.

Torsótt er í Ranann vegna Kringilsár eða Sauðár og frá og með friðlýsingunni 1975 gilda m.a. eftirfarandi reglur: Raninn er hreindýrafriðland og hreindýraveiðar bannaðar, umferð vélknúinna farartækja um svæðið er óheimil nema með leyfi Umhverfisstofnunar og allt jarðrask er bannað, svo og að skerða gróður eða trufla dýralíf. 

Bændur af Efra Jökuldal höfðu upprekstur fyrir lömb sín í Kringilsárrana fyrrum, og voru þau flutt á kláfdrætti yfir Kringilsá vor og haust.