Um Eyjabakkajökul

Eyjabakkajökull er framhlaupsjökull í norðaustanverðum Vatnajökli. Þrír straumar íss mynda um 10 km langa og 4 km breiða jökultungu sem teygir sig niður á efsta hluta Eyjabakka. Af þeim er austasti straumurinn mestur, en hann á rætur sínar í Hnjúkadal. Neðst í jökultungunni eru tvær urðarrendur sem aðskilja ísstraumana þrjá. Sú stærri er ættuð úr Hnjúkafelli sem rís upp úr jöklinum miðjum ofan til. Fyrsta framhlaup sem vitað er um í Eyjabakkajökli var árið 1890, en þá hljóp Brúarjökull einnig. Framhlaup urðu einnig árin 1931 og 1938. Síðast hljóp jökullinn fram um 2 km frá september 1972 til haustsins 1973. Eyjabakkajökull hefur því hlaupið fram á u.þ.b. 35 ára fresti. Samkvæmt þeirri reglu ætti að styttast í næsta framhlaup, en á því gæti þó orðið töf vegna hlýinda undanfarinna ára og neikvæðrar afkomu jökulsins.

Í framhlaupinu 1890 hljóp jökullinn fram um 3-4 km yfir gróið land sem ekki hafði verið hulið jökli í margar aldir. Við það mynduðust miklir og öldóttir jökulgarðar sem, líkt og við Brúarjökul, hafa verið kallaðir Hraukar. Þessir jökulgarðar eru með þeim stærstu á Íslandi og hafa verið rannsóknarefni í áratugi. Stórir jökulgarðar mynduðust einnig í framhlaupinu 1938 um 750 m innan við Hraukana. Nær jöklinum eru haugaruðningar áberandi þar sem dauðís bráðnar undan jökulurð. Upp með vesturjaðri jökulsins hlykkjast mikill krákustígsás sem myndaðist undir lok framhlaupsins 1972-73 og framan við austurhluta sporðsins eru malarásar, jökulkembur og sprungufyllingar áberandi. Í krikanum sunnan Háöldu, þar sem Eyjabakkajökull gengur út úr meginjöklinum, hljóp úr litlu lóni, Háöldulóni, rétt fyrir og í kjölfar framhlaupsins 1972-73. Neðri endi ganga sem vatnsflaumurinn myndaði við botn jökulsins er þekktur sem íshellirinn í Eyjabakkajökli..

Undan vestanverðum sporði Eyjabakkajökuls kemur Jökulsá í Fljótsdal. Í árþúsund hefur hún flæmst um Eyjabakka og byggt þá upp með framburði sínum. Nær jöklinum hefur hún myndað mikla sanda sem nú eru þurrir að mestu. Í yfirborði jökulsins mótar fyrir farvegi árinnar undir honum. Ofarlega í jöklinum eru hringlaga svelgir þar sem vatn af yfirborði jökulsins steypist niður á botn. Göngufólk sem þverar jökulinn á leið sinni frá Snæfellsskála í Lónsöræfi ætti að gæta fyllstu varúðar þegar gengið er um þessi svæði.