Um Brúarjökul

Brúarjökull er stærsti skriðjökull Vatnajökuls. Hann er þekktastur fyrir gríðarleg framhlaup sem í honum verða á 80-100 ára fresti. Í framhlaupunum, sem eru þau mestu sem um getur á jörðinni, hleypur jökullinn fram um 8-10 km á nokkrum mánuðum. Er þá skriðhraðinn mestur um 5 m/klst. (120 m/dag). Vitað er um framhlaup í Brúarjökli 1810, 1890 og 1963-64. Frásagnir af flóðum í Jöklu benda einnig til framhlaupa árin 1720 og 1625. Ekki er vitað um framhlaup í Brúarjökli fyrir þann tíma. Lengst hljóp jökullinn fram árið 1890, eða um 10 km í austanverðum Kringilsárrana. Fjórar stórar ár falla frá Brúarjökli; Jökulsá á Dal, Kringilsá, Kverká og Kreppa.

Við Brúarjökul má finna fjölda merkilegra landforma sem myndast hafa í framhlaupum jökulsins. Þekktust þeirra eru Hraukar, jökulgarðar sem mynduðust í framhlaupi jökulsins árið 1890. Þá ruddi jökullinn upp jarðvegi sem legið hafði óhreyfður í árhundruð. Hraukarnir eru allt að 20 m háir og grónir hryggir sem rekja má samfellt frá Maríutungum í austri til Kverkárhnútu og Kverkárness í vestri. Af öðrum áberandi landformum við Brúarjökul má nefna sikk-sakk laga krákustígsása, malarása, jökulkembur og sprungufyllingar. Vegna stærðar þeirra verða sum þeirra vart greind nema úr lofti. Þessi landform hafa öðrum fremur laðað jarðvísindamenn að Brúarjökli í þeim tilgangi að skýra betur orsakir og eðli framhlaupanna. Jafnframt hefur þekking á myndun og mótun lands við Brúarjökul verið nýtt til að skilja betur svæði í Skandinavíu, N-Evróu og N-Ameríku sem í fyrndinni voru hulin stórum meginlandsjöklum.

Um þessar mundir hörfar sporður Brúarjökuls um 100-250 m á ári, sem gerir það að verkum að landið næst jöklinum breytist stöðugt og nýtt og ókannað land kemur í ljós. Ný lón myndast og tæmast, árfarvegir þorna upp og nýjir verða til, fossar myndast og hverfa, dauðís bráðnar og landform hnigna. Næsta framhlaups er varla að vænta fyrr en um árið 2040 og því mun sú þróun sem nú er í gangi halda áfram næstu áratugi. Ef sú hlýnun sem átt hefur sér stað undanfarinn áratug heldur áfram, mun ákoma á jökulinn minnka. Það gæti seinkað eða jafnvel komið í veg fyrir framhlaup.