Öræfajökull

Öræfajökull gengur suður úr Vatnajökli og er hæsta fjall Íslands, 2.110 metrar. Rætur þess eru í um 100 metrum yfir sjávarmáli og gnæfir fjallið hátt og tignarlega yfir umhverfi sitt. Fjöldi lítilla skriðjökla teygist niður skörðóttar hlíðar fjallsins úr u.þ.b. 1.800 m hæð allt niður að rótum. Þeirra á meðal eru Falljökull, Kvíárjökull, Fjallsjökull og Svínafellsjökull.

Úr öskjubarmi Öræfajökuls rísa margir tindar, sex þeirra ná hærra en 1.700 metra yfir sjávarmál. Að austan eru Sveinstindur og Sveinsgnípa, báðir um 1.900 m, en að sunnan Rótarfjallshnjúkur (1.848 m) og Hnapparnir tveir sem jökullinn var áður kenndur við, sá vestari 1.851 m og sá austari 1.758 m. Norðan til í öskjunni rís svo hæsti tindur Íslands, Hvannadalshnjúkur.

Öræfajökull er toppskorin eldkeila með stóra ísfyllta öskju, allt að 550 m djúpa og 4-5 km í þvermál. Eldkeilan er álitin sú þriðja stærsta sinnar tegundar í Evrópu*, næst á eftir Etnu á Sikiley og Elbrus í Kákasus, og hefur hún gosið tvisvar á sögulegum tíma.

Árið 1362 varð mikið gos í Öræfajökli og álíta jarðvísindamenn það mesta vikurgos á sögulegum tíma hérlendis. Nam gjóskan um 10 milljörðum rúmmetra (10 km3) og má enn finna þykka, ljósa vikurskafla í Öræfum sem eru leyfar þessa goss. Gríðarlegar hamfarir urðu í nágrenni eldfjallsins. Tugir bæja lögðust í eyði vegna flóða, gjóskuhlaupa og gjóskufalls og fjöldi fólks fórst. Blómleg sveit sem áður hét Litla-Hérað fékk á sig ásýnd eyðimerkur og hefur síðan heitið Öræfi. Nafn eldfjallsins breyttist líka í kjölfarið; fyrr hét það Knappafell en síðar Öræfajökull.

Öræfajökull gaus aftur í byrjun ágúst 1727 og linnti gosinu ekki fyrr en að tæpu ári liðnu. Það var mest fyrstu þrjá dagana og var öskufall svo mikið að vart var hægt að greina mun dags og nætur. Færri fórust og minna tjón varð á búpeningi en í fyrra gosinu, og enga bæi tók af. Skýrist það helst af því að bæir stóðu hærra en áður og gjóskan var margfalt minni en í fyrra gosinu. Enn má sjá merki gossins milli Sandfells og Hofs. Háalda heitir þar stór hryggur úr jökulseti sem myndaðist þegar hraðstreymt flóð vatns, mylsnu, gjósku og ísjaka ruddist undan Kotárjökli í eldgosinu. Eftir liggur dauðíslandslag þar sem strandaðir ísjakar hafa bráðnað og skilið eftir sig dældir eða jökulker.

Beerenberg á Jan Mayen er fjórða stærst skv. útreikningum Helga Björnssonar jarðeðlisfræðings frá 2014.

 

Gengið á Hvannadalshnjúk

Hvannadalshnjúkur er samkvæmt nýjustu mælingum 2.110 m hár. Raunar fer hæðin þó eftir snjóalögum og árstíma vegna þess að hnjúkurinn er hulinn jökli á efsta kolli. Er hann þykkastur að vori en þynnstur að hausti. Hvannadalshnjúkur er á norðurbarmi ísfylltrar öskju Öræfajökuls og rís hann um 300 m yfir hjarnsléttu öskjunnar. Hnjúkurinn er úr ljósgrýti (líparíti) eins og tindarnir Hnappar og Rótarfjallshnjúkur en annars er meira um móberg í fjöllunum undir ísnum.

Fyrstu sagnir um ferðir á Öræfajökul eru frá árinu 1794 en þá gekk Sveinn Pálsson þangað frá Kvískerjum. Í ferðinni gerði hann sér grein fyrir myndun skriðjökla, líklega fyrstur manna í heiminum, og hreyfingu þeirra sem seigfljótandi efnis sem sígur undan þyngdaraflinu. Hann sá líka öskulögin í jöklinum þar sem hann brotnar á fjallsbrúnum á niðurleið og dró ályktanir af þeim sem síðar voru sannaðar. Sveinn gekk þó ekki á Hvannadalshnjúk. Fyrsta ferðin þangað svo vitað sé var farin árið 1891 og var þar á ferðinni Frederick Howell, enskur ferðagarpur og skólastjóri, ásamt Svínfellingunum Páli Jónssyni og Þorláki Þorlákssyni.

Nú á dögum leggja fjölmargir leið sína á Hvannadalshnjúk.  Helsti ferðatíminn er síðla vetrar eða snemma sumars, frá lok apríl fram í byrjun júlí. Á þeim tíma er dagurinn langur og jökulsprungur auðveldastar yfirferðar. Hafa verður í huga að á þessum árstíma getur verið hætta á snjóflóðum. Snjóflóð eru algengust þá daga sem snjóar og einkum ef vindur er samfara. Hafa verður í huga að þótt rigni á láglendi þá getur snjóað á jöklinum. Yfirleitt koma ferðamenn snjóflóðunum sjálfir af stað og eru þurr flekaflóð algengust en þá brotnar fleki af snjó frá snjóþekjunni og rennur niður brekkuna.

Nokkrar leiðir eru færar á jökulinn en algengast er að lagt sé upp frá Sandfelli. Leiðin upp er um 11 km og tekur gangan fram og til baka yfirleitt 12 til 18 klukkustundir. Aðrar algengar leiðir eru Virkisjökulleið, Hnappaleið og Kvískerjaleið en einnig er hægt að fara erfiðari leiðir upp á Hvannadalshryggnum eða upp frá Svínafellsjökli meðfram Svínakambi.

Á liðnum árum hafa slys orðið hjá ferðamönnum við göngu á jökulinn. Helstar eru hætturnar þegar komið er inn á jökulinn sjálfan en þar eru sprungur og ísveggir, auk þess sem þar verða snjóflóð, ís- og grjóthrun. Jafnframt hefur síbreytilegt veður mikil áhrif á öryggi ferðamanna en það er þáttur sem er vanmetinn af mörgum sem um jökulinn fara.

Landslag á algengustu leiðum á Öræfajökul hefur ekki mörg kennileiti og nauðsynlegt að ferðamenn séu vanir rötun og séu með landakort, áttavita og GPS.

Öruggast er að fara upp á jökulinn með reyndum fjallaleiðsögumönnum. Sé það ekki gert er mjög mikilvægt að leita sér ítarlegra upplýsinga hjá staðkunnugum og þeim sem hafa mikla reynslu af slíkum ferðum. Einnig ber að kanna vel upplýsingar um veðurfar síðustu daga og þann dag sem ganga á upp á jökulinn.

Ávallt skal ganga í línu á jökli sem hulinn er snjó. Við slíkar aðstæður eiga jafnvel vanir fjallamenn erfitt með að meta staðsetningu jökulsprungna og hvort snjóbrýr séu traustar. Nauðsynlegt er að menn hafi þekkingu til að bjarga sjálfum sér eða félögum sínum úr sprungu.

Vandaður undirbúningur varðandi leiðir, búnað, veður og ferðaáætlun og góð líkamleg þjálfun minnka líkur á slysum. Segja má að líkamlegur undirbúningur fyrir göngu á Hvannadalshnjúk sé svipaður og fyrir hálfmaraþon. Nauðsynlegt er að hafa gott úthald og gott getur verið að borða kolvetnaríkan mat í nokkra daga fyrir ferðina.

Gefið ykkur góðan tíma til að fara yfir skipulag ferðarinnar, þjálfun og hæfni þeirra sem ætla í hana og kannið búnað hvers og eins áður en lagt er af stað.

Veður
Mjög mikilvægt er að huga vel að veðurspá áður en lagt er af stað. Hér á landi getur blíðviðri breyst í aftakaveður á afar skömmum tíma og veður getur breyst mikið eftir því sem farið er hærra. Almennt má búast við því að fyrir hverja 100 metra hækkun lækki hitastigið að jafnaði um 0,6°C , úrkoma aukist og vindur geti margfaldast við fjallsbrúnir.

Ferðaáætlun
Mjög mikilvægt er að gera ferðaáætlun áður en lagt er af stað og skilja hana eftir hjá aðstandendum og láta þá síðan vita þegar komið er niður af jöklinum.

Ferðaáætlun skal a.m.k. ná til:

  • Brottfarartíma og áætlaðs komutíma
  • Gönguleiða, hvaða leið á að fara upp og hvaða leið á að fara niður niður
  • Fjölda þeirra sem taka þátt í göngunni og búnaðs þeirra

Ekki tekst alltaf að fara alla leið á toppinn og getur þurft meira hugrekki til þess að snúa við en halda ferðinni áfram.

Ferðafólk getur þurft að snúa við þegar:

  • Veðurútlit er ótryggt
  • Búnaður er ónógur
  • Samferðamenn fylgja ekki fyrirfram gerðri áætlun
  • Þol einhvers reynist minna en ætlað var
  • Sendið aldrei uppgefna einstaklinga eina til baka

Ef hringja á í Neyðarlínuna í gegnum gervihnattasíma er símanúmerið 354-8090-112 og ef þörf er á aðstoð björgunarsveita er óskað eftir henni í gegnum númer Neyðarlínunnar.

(Texti er birtur með góðfúslegu leyfi frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.)