- Svæðin
- Skaftafell
- Jökulsárlón / Hornafjörður
- Jökulsárgljúfur
- Ódáðahraun / Krepputunga
- Snæfell / Lónsöræfi
- Laki / Eldgjá / Langisjór
- Nýidalur / Vonarskarð / Tungnaáröræfi
- Vatnajökull | Hörfandi jöklar
- Skipuleggja heimsókn
- Fræðsla
- Stjórnsýsla
Hvannalindir - Kreppuhryggur - Kreppuþröng
Frá Kverkfjallaslóð í Hvannalindum liggur afleggjari suðaustur á bílastæði við norðurendann á Kreppuhrygg. Stutt ganga er upp á hrygginn þaðan sem er frábært útsýni yfir Hvannalindir og suðaustur yfir Lindahraun til Kverkfjalla. Stutt er þaðan austur að Kreppuþröngum þar sem Kreppa byltist í örþröngri rás.
Hvannalindir - bæjarrústir - Lindakeilir
Smáspölur er frá bílastæði við endann á Kreppuhrygg að norðurjaðri Lindahrauns. Þar austan við Lindaá eru í hraunbrúninni rústir útilegumannabæjar. Um tveggja kílómetra gönguleið er frá rústunum vestur með hraunjaðrinum, yfir melöldu og Lindakvísl að Lindakeili, sem er stakur strýtulaga móbergshóll rétt við akleiðina suðvestast á lindasvæðinu.
Hvannalindir - Lindaá - Krikatjörn
Lengri gönguleið má velja frá bæjarrústunum í Hvannalindum með fram Lindaá eftir jaðri Lindahrauns suður á móts við Krikatjörn eða að Sjónarhæð þar sem komið er á akslóðina að Hveragili.
Lindafjöll - Rifnihnjúkur - Upptyppingar
Akslóðin frá Sigurðarskála að brú á Jökulsá á Fjöllum sunnan Upptyppinga liggur um Krepputunguhraun vestan undir Lindafjöllum og norðaustan við Rifnahnjúk (780 m) og Rifnahnjúksöldur. Rifnihnjúkur er um 100 m hátt móbergsfell úr bólstrabergi en með túffhettu á kolli, sundurskorið af sprungum og misgengjum.