Dagskrá landvarða

Fræðsludagskrá 2021

 

Askja - dulúð og kyngimagn 

Daglega kl. 13:00

Fáir staðir búa yfir jafn mikilli dulúð og aðdráttarafli og Askja. Landvörður segir frá jarðfræði Öskju og Dyngjufjalla og örlagaríkum heimsóknum manna í Öskju. 

Gengið er að Víti (2,3 km) og tekur rúma klukkustund.

Lagt af stað kl. 13 frá bílastæði í Vikraborgum (20 mínútna akstur frá Drekagili). 

Kverkfjöll - Eldur og ís

Daglega kl. 10:00

Háhitasvæði, jökullinn og landmótun hans einkenna Kverkfjöll og nærumhverfi þeirra. Landvörður segir frá síbreytilegum jöklinum, afurðum hans og eldinum sem kraumar undir niðri.

Gengið er stuttan spöl um jökulruðning að íshellinum þar sem áin Volga kemur undan jökli og tekur gangan um 50 mínútur.

Lagt af stað frá bílastæði við Kverkjökul (10 mínútna akstur frá Sigurðarskála).

Holuhraun - land í mótun 

Daglega kl. 10:00 

Holuhraun myndaðist í stærsta hraungosi á Íslandi í 230 ár. Fjallað er um sambýlið við Bárðarbungu, sem nú síðast gat af sér magnaðar jarðmyndanir og úfið hraunflæmi Holuhrauns. Hraunið lúrir sunnan Dyngjufjalla, en tekur enn miklum breytingum síkvikrar náttúru svæðisins, þar á meðal ferðamanna! 

Gengin er 800 m stikuð leið um hraunið og tekur um 45 mínútur.

Lagt af stað kl. 10 frá bílastæði við norðurjaðar hraunsins (40 mínútna akstur frá Drekagili). 

Hvannalindir - Griðarstaður í gróðurvin

Daglega kl. 13:00

Hálendisvinin í Hvannalindum hefur löngum veitt viðkvæmu plöntu- og dýralíf skjól, mitt í hrjóstrugu landsvæði Krepputungu. Gestir fræðast um lífsbaráttuna á þessum afskekkta stað og rústir útilegumanna frá 18. öld. Gangan tekur um eina klukkustund og lagt er af stað frá bílastæðinu við Kreppuhrygg.

Herðubreiðarlindir - Vin í eyðimörkinni

Daglega eftir samkomulagi

Í aldaraðir hafa Herðubreiðarlindir verið griðastaður lífs mitt í svartri hraunbreiðu Ódáðahrauns. Gengið er um lindirnar gróðursælu og rýnt í hið smáa í náttúrunni sem og öflin sem mynduðu hraunið, lindirnar og Herðubreið. Gangan hefst við Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum og tekur um 1 klst.

Öll fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs