Um Vonarskarð

Vonarskarð og Tungnaáröræfi eru með afskekktustu og torfærustu svæðum Íslands og fáir sem leggja þangað leið sína.

Í Vonarskarði er háhitasvæði í um 950 – 1100 metra hæð yfir sjávarmáli með óvenjulega fjölbreyttum gróðri, litskrúðugu hverasvæði og sjaldgæfum háhitalífverum með hátt verndargildiÞar finnst einnig ein hæsta mýri landsins í yfir 900 m hæð yfir sjó. Landslag er óvenjulegt, stórbrotið og fjölbreytt; jöklar og há fjöll, sandsléttur og áraurar, jökulár, bergvatnsár og volgar lindir og litfagrir hverir. Í Vonarskarði eru vatnaskil Skjálfandafljóts og Köldukvíslar sem rennur í Tungnaá. Um sendinn öskjubotninn renna lækir að því er virðist hlið við hlið sem síðar eiga eftir að falla til sjávar ýmist á Suður- eða Norðurlandi. Einstök náttúra Vonarskarðs, víðerni og kyrrð lætur engan ósnortinn.