Um Tungnaáröræfi

Tungnaáröræfi bera nafn með rentu en landið norðan Tungnaár allt til Vonarskarðs er eldbrunnin eyðimörk undir áhrifum frá hinu mikla eldstöðvakerfi Bárðarbungu; hraun og gígar, orpin svörtum sandi og vikri.  Stór hluti svæðisins er fáfarinn og öræfakyrrðin mikil. Þeir fáu gestir sem heimsækja svæðið heillast af víðáttunni, auðninni og andstæðum svartra sanda, fagurgræns mosa og hins þrautseiga háfjallagróðurs sem leynist í auðninni og teygir sig upp suður- og austurhlíðar Tungnafellsjökuls. Hvort sem er að nóttu eða degi, sumri eða vetri verða gestir fyrir miklum hughrifum í þessu óbyggða en jafnframt fágæta víðerni sem svæðið geymir.