Um Nýjadal

Nýidalur, sem einnig ber nafnið Jökuldalur, fannst líklega síðastur allra öræfadala. Skýringin gæti verið sú að hann sést illa af hinni fornu Sprengisandsleið sem liggur 20 km vestar. Skammt norðan sæluhúsanna í Nýjadal er gróðurvin sem kallast Tómasarhagi. Hún er nefnd eftir Fjölnismanninum Tómasi Sæmundssyni sem fann blettinn fyrir tilviljun þegar hann var á leið norður Sprengisand og villtist af leið í vondu veðri. Öllum að óvörum fóru hestarnir að krafsa í snjóinn og bíta gras í þessari eyðimörk þar sem einskis var von.