Eldgjá

Eldgjá er hluti af gossprungu sem nær frá Mýrdalsjökli langleiðina að Vatnajökli. Staðurinn er vinsæll áfangastaður á Fjallabaksleið nyrðri (F208) en margir gestir hafa þar viðdvöl til að ganga að Ófærufossi. Landverðir hafa daglega viðveru við þjónustuhús í Eldgjá og gefa ýtarlegri upplýsingar. 

 

Eldgjá (þjónustuhús) - Ófærufoss

Vegalengd: 2,5 km (önnur leið)
Göngutími: 2 1/2 klst. (báðar leiðir)
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð leið)

Frá bílastæðinu í Eldgjá er gengið eftir botni gjárinnar og að Ófærufossi. Gangan gefur góða hugmynd um stærð gjárinnar. Hægt er að ganga aðra leiðina upp á eystri gjárbarminum, við það lengist leiðin örlítið og um 150 m. hækkun bætist við en útsýnið er þess virði.

 

Eldgjá (þjónustuhús) - Gjátindur

Vegalengd: 7 km (önnur leið)
Göngutími: 3-4 klst. (önnur leið)
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið en erfið leið ef farið er inn gjána og upp við enda hennar (rauð leið/svört leið)

Frá bílastæðinu í Eldgjá er gengið eftir botni gjárinnar á móts við Ófærufoss en þar er gengið upp á eystri barm gjárinnar. Síðan er gengið eftir gjárbarminum og upp á tindinn. Hægt er að ganga inn alla gjána og upp við enda hennar en sú leið er mjög brött og laus. 

 

Fyrir þá sem ekki vilja keyra yfir Ströngukvísl á Fjallabaksleið nyrðri þá er hægt að leggja á bílastæði sunnan megin við ána og hefja gönguna við göngubrú rétt við bílastæðið.

 

Strangakvísl - Eldgjá (þjónustuhús)

Vegalengd: 2 km (4 km fram og til baka)
Göngutími: 1 klst. (önnur leið)
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:  Krefjandi leið (rauð leið)

Sunnan Ströngukvíslar er bílastæði og göngubrú. Þaðan er gengið upp með Nyrðri-Ófæru og að þjónustuhúsinu við Eldgjá. Leiðin er falleg og mögulegt er að tengja hana öðum gönguleiðum.