Um Langasjó

Langisjór er 27 km² stórt stöðuvatn í 670 m hæð og mesta vatnsdýpi þess er 75 m.  Á fyrri hluta tuttugustu aldar rann kvísl úr Skaftá í vatnið og þá var það jökullitað en er nú meðal tærustu fjallavatna á Íslandi. Nafn sitt dregur vatnið af lengd sinni en það er um 20 km langt í stefnu norðaustur - suðvestur og 2 km breitt. Móbergshryggirnir í kringum Langasjó einkenna svæðið og eru einstakir á heimsvísu. Vegna þess hve afskekkt vatnið er fannst það ekki fyrr en á 19. öld.  Austan við Langasjó eru Fögrufjöll, móbergshryggur sem ber nafn sitt með prýði, mosagrænn og svartur og víða ganga þverhnípt klettahöfuð fram í Langasjó. Fremst trónir Sveinstindur (1089 m y.s.m) en af honum er einstakt útsýni til allra átta. 

Hvítur jökullinn, blátt vatnið, mosagræn fjöllin, svartur vikurinn og upplifun endalausra víðáttu öræfanna er það sem gefur Langasjó og umhverfi hans sérstöðu. Þeir gestir okkar sem hugsa sér að ganga kringum Langasjó eru vinsamlega beðnir um að hlífa gróðrinum á svæðinu eftir fremsta megni, aðeins að ganga á þeim stígum sem fyrir eru og tjalda ekki á mosagróðrinum, frekar á vikrinum sem jafnar sig fyrr eftir átroðning. 

Þjónustuhús og tjaldsvæði er við suðurenda Langasjávar, stutt frá Sveinstindi og eru nokkrar mislangar gönguleiðir þar í kring (sjá gönguleiðir við Langasjó).